Sat fastur í gili á skíðasvæðinu

Laust fyrir kl. 18 í gær barst starfsmönnum á skíðasvæði Ísafjarðarbæjar tilkynning um 10 ára drengur sæti fastur í gili á skíðasvæðinu. Í tilkynningu frá skíðasvæðinu segir að fyrstu upplýsingar hafi verið óljósar og því hafi verið sett á hæsta viðbragðsstig og kallaður til læknir, sjúkrabíll og lögregla. Snjótroðari og vélsleði frá skíðasvæðinu fóru strax á vettvang og þegar starfsmenn skíðasvæðisins komu að gilinu var annar skíðamaður á vettvangi og var hann búinn að koma drengnum upp úr gilinu. Drengurinn var ekki slasaður en var kaldur þar sem hann hafði þurft að sitja í læk á botni gilsins og komst hann ekki upp læknum af sjálfsdáðum.

Í tilkynningu frá skíðasvæðinu segir að gilið sé utan skilgreinds skíðasvæðis. Eftir að hafa farið yfir atburði gærdagsins hefur verið ákveðið að loka svæðinu með girðingum og merkingum á meðan snjór er ótraustur, en gilið er vinsælt hjá brettafólki. Þá er minnt á að utan skilgreinds skíðasvæðis er fólk á eigin ábyrgð og starfsmenn svæðiðisins eru ekki með reglulegt eftirlit þar. Foreldrar eru hvattir til að brýna fyrir börnum sínum að í gilinu sem og annars staðar utan skilgreinds skíðasvæðis eru þau á eigin ábyrgð.

DEILA