Sanngirni gætt við stofnun Orkubús Vestfjarða

Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Á dögunum kom upp umræða um vatnsréttindi í eigu Orkubús Vestfjarða, í tengslum við litla virkjun í Skutulsfirði. Umræðan um vatnsréttindi OV er ekki ný af nálinni og hefur reyndar stundum farið út um víðan völl og ekki byggt alfarið á staðreyndum málsins. Hér verður vikið nokkrum orðum að stofnun Orkubús Vestfjarða og fjárhagslegum forsendum þess gjörnings í tengslum við vatnsréttindi félagsins.

Ráðstöfun vatnsréttinda til Orkubúsins


Í umræðunni krystallast sá meiningarmunur sem komið hefur upp í viðræðum Orkubúsins við sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum í tengslum við afhendingu þeirra á vatnsréttindum til Orkubúsins við stofnun þess. Orkubú Vestfjarða telur að samningar sem undirritaðir voru við sveitarfélögin taki af allan vafa um eignarhaldið á vatnsréttindunum, en efasemda hefur gætt hjá ýmsum fulltrúum sveitarstjórna.

Samningarnir sem gerðir voru við sveitarfélögin eru að vonum mjög keimlíkir og er hér dæmigert orðalag slíkra samninga eins og það kemur fyrir í samningi við Ísafjarðarkaupstað á sínum tíma. (Feitletranir eru höfundar)
Í samningnum segir í 5. grein:

„Frá og með 1. janúar 1978 afhendir bæjarstjórn Ísafjarðar Orkubúi Vestfjarða allan rétt til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns, sem Ísafjarðarkaupstaður eða Rafveita Ísafjarðar á eða kann að eiga í löndum kaupstaðarins, rafveitunnar eða annars staðar og kaupstaðurinn kann að hafa samið um. Nær þetta jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda. Jafnframt er Orkubúi Vestfjarða veittur réttur til hvers konar rannsókna og tilraunaborana í löndum Ísafjarðarkaupstaðar og hagnýtingar þerra upplýsinga er við það fást, en gefa skal bæjarstjórn Ísafjarðar kost á að fylgjast með rannsóknum og niðurstöðum þeirra. Hafa skal samráð við bæjarstjórnina áður en rannsóknir eða boranir eru ákveðnar og haga þeim svo að sem minnst röskun verði fyrir kaupstaðinn eða íbúa hans.“

Sambærilegt ákvæði er að finna í 5. grein afsalsins.

Engum vafa er því undirorpið að sveitarfélögin létu af hendi vatnsréttindi sem tilheyra landi í þeirra eigu, en eignuðust í staðinn hluti í Orkubúi Vestfjarða. Þetta var gert með fullri vitund og vilja þeirra sem fóru með samningsumboðið fyrir hönd sveitarfélaganna.

Greiðsla fyrir vatnsréttindin


Margir núverandi sveitarstjórnarmenn vilja meina að ekki hafi verið greitt fyrir vatnsréttindin á sínum tíma og telja jafnvel vafa leika á því að þau séu í raun og veru eign Orkubús Vestfjarða. Því fer hinsvegar víðs fjarri enda verður það að teljast ólíklegt að allir helstu forystumenn sveitarfélaga á Vestfjörðum hefðu látið hlunnfara sín sveitarfélög með þeim hætti. Samningurinn var gerður við 32 sveitarfélög á Vestfjörðum sem samtals eignuðust 60% hlut í Orkubúi Vestfjarða. Samningurinn er undirritaður af tugum sveitarstjórnarmanna þess tíma.

Við stofnun Orkubús Vestfjarða lagði ríkið m.a. inn sem stofnfé, Mjólkárvirkjun, Þverárvirkjun og Reiðhjallavirkjun ásamt vatnsréttindum þeirra og aðalorkuflutningslínum sem voru í eigu Rarik. Ekki verður rakinn hér stofnefnahagsreikningur Orkubúsins, en rétt er að geta þess að þær eignir sem voru taldar upp hér á undan námu um 59% af höfuðstól í efnahagsreikningi eftir að áhvílandi skuldir hafa verið dregnar frá. Eignir sveitarfélaganna og veitna í þeirra eigu hafa því numið um 41%. Tiltekið var í samningum við sveitarfélögin að vatnsréttindi þeirra væru hluti af stofnframlagi í Orkubúi Vestfjarða eins og fram kom hér á undan. Vatnsréttindin eru ekki bókfærð, en eru tilgreind í skýringu 15 í ársreikningi Orkubúsins 2016, sem eignir utan efnahags.

Lög og reglugerð um Orkubú Vestfjarða

Í lögum um Orkubú Vestfjarða nr. 66/1976 segir í 3. grein að eignarhluti ríkissjóðs skuli vera 40% en eignarhlutur sveitarfélaganna skuli nema samtals 60% og skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu þeirra. Hið sama kemur fram í reglugerð um Orkubú Vestfjarða nr. 192/1978.Samningurinn hagstæður sveitarfélögunum

Skipting á heildareign sveitarfélaganna og eign ríkisins var ákveðin með reglugerð sem studd var lögum og ekki verður annað séð en að sveitarstjórnarmenn hafi haldið vel á spilunum fyrir sína umbjóðendur með því að fá 60% eignarhald í félaginu á móti 40% eign ríkisins. Sveitarfélögin fengu þannig verulega stærri hlut í félaginu en sem nam þeim fastafjármunum og veltufjármunum sem þau lögðu fram. Það skýrist ekki síst af væntingum á nýtingu þeirra vatns- og jarðhitaréttinda sem fylgdu með í kaupunum.

Það má öllum vera ljóst að skipting á eignarhaldi sveitarfélaganna fór ekki nákvæmlega eftir því hvaða eignir þau höfðu lagt til hvert um sig, heldur fór hluturinn eftir íbúatölu viðkomandi sveitarfélags. Á sama hátt er það augljóst að eignarhlutur sveitarfélaganna var mun hærri en nam þeim fastafjármunum og veltufjármunum sem þau lögðu til félagsins.
Augljóst má því vera að sveitarfélögin báru ekki skarðan hlut frá borði þegar samið var um eignarhald Orkubúsins og þau eignuðust 60% hlut á móti 40% hlut ríkisins. Þar ber þó að hafa í huga að sveitarfélögin voru að setja inn í félagið bæði þekkt og óþekkt vatnsréttindi sín á meðan ríkið var að setja inn þekkt og óþekkt vatnsréttindi tengd virkjununum sínum.

Orkubú Vestfjarða ohf
.

Orkubúi Vestfjarða var breytt úr sameignarfélagi í hlutafélag með lögum nr. 40/2001. Í kjölfar þess keypti ríkið hluti sveitarfélaganna á árinu 2001 og 2002, fyrir samtals 2.760 m.kr. Uppreikna má þá fjárhæð með vísitölu til verðtryggingar og fæst þá sú niðurstaða að ríkið hafi greitt sveitarfélögunum 5,8 milljarða fyrir hluti þeirra í Orkubúinu, reiknað á verðlagi dagsins í dag.
Á því má vissulega hafa mismunandi skoðanir hvort fjárhæðin var nægilega há. Það má líka hafa á því skoðun hvort sveitarfélögin hafi breytt rétt með ákvörðun sinni um að selja og að vera ekki lengur eigendur í Orkubúi Vestfjarða. Út frá fjárhagslegu sjónarmiði verður þó að teljast ólíklegt að það kæmi sér endilega betur fyrir sveitarfélögin að vera með 5,8 milljarða króna bundna í eignarhaldi á Orkubúinu.

Sanngirni gætt

Mín skoðun er sú að gætt hafi verið fyllstu sanngirni í samningum á milli aðila og að vissulega hafi verið tekið tillit til þess að Orkubúið væri að eignast þekkt og óþekkt vatnsréttindi sem áður voru í eigu sveitarfélaganna. Það er von mín að hér hafi tekist að varpa nokkru ljósi á aðdraganda þess að Orkubú Vestfjarða eignaðist vatnsréttindi sveitarfélaganna á Vestfjörðum og að þeir heiðursmenn sem stóðu að stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir hönd sveitarfélaganna og ríkisins njóti kannski meira sannmælis en þeir oft hafa gert í umræðunni.

Ísafirði, 9. febrúar 2018

Elías Jónatansson, orkubússtjóri

DEILA