Rótarýdagurinn 24. febrúar

Gunnar Þórðarson.

Rótarýdagurinn er haldinn hátíðlega um allan heim 24. febrúar. Á þessum degi vill hreyfingin vekja athygli á þeirri starfsemi sem Rótarý stendur fyrir. Rótarý er starfsgreinaklúbbur sem var stofnaður í Síkagó árið 1905.

Hugmyndafræðin var að tengja saman menn úr ýmsum starfsstéttum og að félagar hittust reglulega og miðluðu með sér þekkingu og reynslu.

Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefur starfað síðan 1937 og er næst elsti Rótarýklúbbur landsins. Klúbburinn var stofnaður að Hafnarstræti 2 á Ísafirði á heimili Jónasar Tómassonar bóksala. Fundir eru haldnir vikulega á Hótel Ísafirði (fyrir utan sumarfrí) hvern fimmtudag milli kl. 18:30 og 20:00. Á fundum borða félagar saman kvöldverð og hlýða á erindi kvöldsins, sem er ýmist í höndum félaga eða utanaðkomandi gests. Gert er ráð fyrir að hver félagi flytji árlega starfsgreinarerindi til að kynna sína atvinnugrein. Reglulega er klúbbfélögum boðið í heimsókn á vinnustaði þar sem starfsemin er kynnt fyrir félögum með erindi frá forsvarsmönnum fyrirtækis eða stofnunar.

Fyrirlestrar á fundum eru örugglega mikilvægasta framlag rótarýklúbbsins, þar sem ekki er eingöngu um fræðslu að ræða, heldur fá félagar mikla og góða reynslu í að koma fram og kynna sín mál. Þetta er mikilvæg reynsla sem nýtist bæði í atvinnulífinu og eins þroskar þetta einstaklinginn og gerir hann hæfari til að takast á við samfélag nútímans. Kúbburinn hefur oft boðið málsmetandi mönnum og konum sem koma annarstaðar frá til að ræða mikilvæg mál samtímans, og hefur þá oftar en ekki opnað fundinn fyrir almenningi, enda hafa félagar talið erindið mikilvægt og áhugi væri fyrir því í samfélaginu. Það er einmitt haft eftir fyrrverandi forseta Íslands og rótarýfélaga, frú Vigdísi Finnbogadóttur, að erindi á rótarýfundum væri á við háskólanám í miðlun þekkingar.

Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefur staðið fyrir mörgum samfélagsverkefnum í gegnum tíðina. Eitt af mikilvægustu verkefnum klúbbsins hefur verið skógrækt. Á síðasta ári var klúbbnum úthlutað landskika við Karlsá í Skutulsfirði þar sem fyrirhugað er að byggja upp sælureit fyrir Ísfirðinga og gesti í framtíðinni. Klúbburinn hefur árlega veitt útskriftarnemum frá Grunnskóla Ísafjarðar verðlaun fyrir mestu framfarir í námi. Hann hefur jafnframt styrkt tónlistaskóla bæjarins til árlegra tónleika á Eyri, þar sem framúrskarandi ungir tónlistanemar nota hæfileika sína til að skemmta íbúum hjúkrunarheimilisins. Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefur staðið fyrir verkefni þar sem merkileg og söguleg hús í bænum hafa verið merkt. Klúbburinn stóð fyrir örnefnamerkingum á Súðavíkurhlíð og við Skutulsfjörð á sögulega merkilegum stöðum. Merkin voru tekin niður fyrir þremur árum síðan þar sem þau voru farin að láta á sjá, en verða endurnýjuð að vori komandi í samvinnu við Vegagerðina. Við það tilefni verður fjórblöðungur sem áður var gefin út um þessa sögustaði endurútgefinn og endurbættur. Á Arnarnesi stóð klúbburinn fyrir uppsetningu á sjónskífu með örnefnum við Ísafjarðardjúp. Í gegnum tíðina hefur klúbburinn staðið fyrir mörgum góðum málum í samfélaginu, má minna á þriggja ára samstarf við Íþróttaskóla HSV með kaupum á búningum fyrir útskriftarnemendur skólans.

Rótarýfélagar hafa oftar en ekki brugðið undir sig betri fætinum og farið ásamt mökum í skemmtilegar helgarferðir. Félagar hafa m.a. ferðast um Ísafjarðardjúp, heimsótt Flatey á Breiðafirði og heimsótt Ingjaldssand. Kúbburinn heimsótti Rótarýklúbb Ólafsfjarðar þar sem gist var í heimahúsum og heimamenn kynntu allt það besta sem bærinn hefur upp á að bjóða.

Ekkert skiptir þó meira máli en sú langvinna vinátta milli manna eftir áralanga samleið í Rótarý. Slík samvera og góð kynni brýtur niður múra milli manna, bætir samskipti og stuðlar að virðingu og vináttu. Við hver fundarslit fara félagar saman með fjórpróf Rótarý sem hljóðar svo:

· Er það satt og rétt

· Er það drengilegt

· Eykur það velvild og vinarhug

· Er það öllum til góðs

Gunnar Þórðarson, félagi í Rótarýklúbb Ísafjarðar.

DEILA