Óljóst hvort Súðavíkurgöng verði á næstu samgönguáætlun

Ekki er ljóst hvort jarðgöng á milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar, Súðavíkurgöng, verði á samgönguáætlun sem gildir frá árinu 2019 til 2030. Þetta kom fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi. Í samgönguáætlun 2015–2026 sem lögð var fram á Alþingi haustið 2016 er miðað við að Fjarðarheiðargöng verði næst í röðinni eftir að gerð Dýrafjarðarganga lýkur haustið 2020. Nú er hafin vinna við endurskoðun þessarar áætlunar og reiknað með að ný áætlun, 2019–2030, verði lögð fram á þingi haustið 2018.

Í svari samgönguráðherra kom jafnframt fram að ekkert hafi verið unnið að rannsóknum á gerð ganga milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar á síðasta ári sökum anna við upphaf Dýrafjarðarganga og lok Norðfjarðarganga. Unnið verði að skipulagi vinnu við Álftafjarðargöng á þessu ári.

 

DEILA