Óku Súðavíkurhlíð eftir lokun og mega búast við sekt

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað á laugardagskvöld vegna snjóflóðahættu og vegurinn var opnaður fyrir umferð í morgun. Þegar mokstursmenn hófu störf á hlíðinni í morgun biðu þeirra á þriðja tug snjóflóða sem sannar að ákvörðun um að loka veginum var hárrétt. Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá að skömmu eftir að lokunin var sett á sáu tveir ökumenn ástæðu til að hundsa þessar öryggisráðstafaanir og ókur frá Súðavík til Ísafjarðar. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að lögreglan hafi tekið á móti ökumönnunum við lokunarhliðið Ísafjarðarmegin og mega þeir búast við að vera sektaðir fyrir athæfið.

Lögreglan bendir á að það ætti að vera óþarfi að útskýra tilgang þess að vegum undir hættulegum hlíðum er lokað Slíkt er gert til öryggis fyrir vegfarendur, starfsmenn Vegagerðarinnar og ekki síður til að forðast að þurfa að senda björgunarsveitafólk inn á hættusvæði til að bjarga þeim sem lenda í vandræðum á slíkum vegaköflum.

Náið samstarf er milli Vegagerðarinnar, lögreglunnar og snjóflóðaeftirlits Veðurstofu Íslands um ákvörðun og framkvæmd ráðstafananna eins og lokana vega vegna hættu á snjóflóðum.

DEILA