Mikilvægur sigur í Smáranum

Vestri er enn á mikilli siglingu í 1. deild Íslandsmótsins í körfubolta. Eftir tvo góða sigra um síðustu helgi í háspennuleikjum á Torfnesi var komið að því í gær að fara suður yfir heiðar, nánar tiltekið í Smárann í Kópavogi þar sem heimamenn í Breiðablik biðu gráir fyrir járnum. Það var mikið í húfi. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn og þetta var þriðji og síðasti leikur liðanna í deildarkeppninni. Í þriggja leikja umferð er það liðið sem hefur betur í innbyrðis viðureignum sem verður fyrir ofan í deildinni, ef liðin skilja jöfn að stigum. Liðin höfðu skipt með sér sigrum í fyrstu tveimur leikjunum

Eftir æsispennandi leik náðu Vestri forskoti undir lokin og létu það ekki af hendi og Vestri náði með harðfylgi að landa sigri með þriggja stiga mun, 92-95.

Að vanda voru Nebojsa Knezevic og Nemanja Knezevic lykilmenn í leik Vestra. Nebojsa skoraði 33 stig, náði 12 fráköstum og átti 7 stoðsendingar og 39 í framlag. Nemanja skoraði 29 stig, náði 12 fráköstum og sendi 4 stoðsendingar. Tíðindamaður körfunnar.is var á leiknum og hann minnist einnig á leik bakvarðapars Vestra, þeirra Björns Ásgeirs Ásgeirssonar og Ingimars Arons Baldurssonar. Björn Ásgeir stal þremur boltum á miðjum vellinum sem að skiluðu sér í 6 auðveldum stigum og Ingimar Aron setti tvö seinustu vítaskot Vestra til að koma muninum upp í 3 stig með tvær sekúndur eftir á leikklukkunni.

Eftir leiki gærkvöldsins er Vestri í öðru sæti deildarinnar með 28 stig. Skallagrímur situr á toppi deildarinnar með 30 stig og Breiðablik er í þriðja sæti með 26 stig.

Möguleikar Vestra um að komast upp um deild vænkuðust við þennan sigur, en liðið á erfiða leiki fyrir höndum og ekkert gefið í þeim efnum.

DEILA