Ísafjarðarbær ætlar að innleiða keðjuábyrgð

Sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar hafa á síðustu árum verið að innleiða svokallaða keðjuábyrgð. Með því er átt við að aðalverktaki ber ábyrgð á því að undirverktakar standi í skilum og greiði rétt laun og virði ákvæði kjarasamninga.

Nú ætlar Ísafjarðarbær að undirbúa innleiðingu keðjuábyrgðar og bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að gera tillögu að ákvæði um keðjuábyrgð sem verður sett í alla samninga Ísafjarðarbæjar, þ.e. verk-, vörukaupa- og þjónustusamninga.

Í minnisblaði Brynjars Þórs Jónassonar, sviðstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, kemur fram að í nýlegu útboði bæjarins bárust ábendingar um að undirverktaki á vegum aðalverktaka bryti gegn ákvæðum kjarasamninga. Í minnisblaðinu er lagt til að keðjuábyrgð verði til staðar í öllum samningum bæjarins.

DEILA