Hálf öld frá sjóslysunum miklu

Notts County á strandstað á Snæfjallaströnd eftir að veðrinu slotaði. Ísingin á togaranum leynir sér ekki.

Hálf öld er frá fárviðrinu sem gekk yfir Vestfirði dagana 4. og 5. febrúar 1968 með þeim afleiðingum að 26 sjómenn af þremur skipum fórust í Ísafjarðardjúpi. Sex bolvískir sjómenn fórust með Heiðrúnu II. Breski togarinn Ross Cleveland fórst rétt við mynni Skutulfjarðar og með honum 19 menn, en einn bjargaðist eftir að hafa rekið á björgunarbát alla leið inn í Seyðisfjörð. Breski togarinn Notts County strandaði við Sandeyri á Snæfjallaströnd og tókst skipverjum á varðskipinu Óðni að bjarga 19 skipverjum af strandstað, en einn skipverji hafði drukknað við skipshlið áður en Óðinn kom á vettvang.

Heiðrún II lá við Brjótinn í Bolungarvík þegar óveðrið færðist allt í aukana. Sunnudaginn 4. febrúar var báturinn að slitna frá og stukku þá sex menn um borð í Heiðrúnu og hugðust sigla bátnum til Ísafjarðar í var. Ferðin gekk vel til móts við Hnífsdal, en bilana hafði gætt í radar, dýptarmælum og talstöð. Fyrir utan Hnífsdal varð radarinn óvirkur og komst ekki í lag eftir það. Var skipinu því siglt í var undir Snæfjallaströnd. Ofsaveður var þá þegar komið á, sem enn átti eftir að versna. Skömmu eftir miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. febrúar heyrðist síðast til skipsins, og fullvíst má telja að Heiðrún II hafi farist um það leyti, um 2,7 sjómílur undan Vébjarnarnúpi.

Í gær var sjóslyssins minnst með athöfn í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Með Heiðrúnu fórust: Rögnvaldur Sigurjónsson, 52 ára vélstjóri sem var skipstjóri í þessari ferð, og tveir synir hans, Ragnar, 18 ára, og Sigurjón, 17 ára, sem báðir voru hásetar, Páll Ísleifur Vilhjálmsson, 31 árs vélstjóri á vs. Guðmundi Péturs, Kjartan Halldór Kjartansson, 23 ára háseti á vb. Einari, og Sigurður Sigurðsson háseti, 17 ára.

Þegar 40 ár voru frá sjóslysunum birtist í BB viðtal við Hávarð Olgeirsson skipstjóra á Hugrúnu ÍS frá Bolungarvík. Hávarður, sem lést árið 2010, þurfti að forða skipi sínu til Ísafjarðar þar sem það var að slitna frá Brjótnum í Bolungarvík. Viðtalið, sem fer hér á eftir, gefur glögga mynd af veðurofsanum og þeirri gífurlegri ísingu sem grandaði skipunum sem fórust í Djúpinu þennan örlagaríka dag:

Hávarður Olgeirsson skipstjóri á Hugrúnu ÍS frá Bolungarvík lenti í honum kröppum þegar óveðrið mikla gekk yfir Vestfirði. Hann var fús til að rifja þessa sjóferð upp þegar innt var eftir því en hann liggur við akkeri á Sjúkraskýlinu í Bolungarvík eins og hann orðar það sjálfur. Hann man ekki eftir öðru eins veðri og segir að engan hefði grunað að það gæti verið vandamál að sigla á 200 tonna bát frá Bolungarvík til Ísafjarðar þó veður væri slæmt. Annað átti eftir að koma á daginn.

Hávarður svaf á sínu græna eyra þegar hringt var í hann og honum sagt að bátarnir væru að slitna frá Brjótnum. Hann hringdi umsvifalaust í Bjarna Benediktsson, sem þá var átján ára gamall og annar vélstjóri á Hugrúnu. Sá háttur var hafður á, að þeir fóru einungis tveir á bátnum þegar farið var til Ísafjarðar.  „Það var gert til að létta á mannskapnum, því yfirleitt vorum við að fara í leiðinlegum veðrum og erfitt að komast til baka. Svo er þetta ekki nema klukkutíma ferð inn á Ísafjörð að öllu eðlilegu.”

Veðrið var svo dýrvitlaust að Hávarður átti í stökustu vandræðum með að komast niður að bryggju, varla var stætt fyrir roki og allt að fyllast af snjó. Einhverjir bátar urðu eftir við Brjótinn og að sögn Hávarðar þurftu skipverjar að berjast í tvo sólarhringa við að halda bátunum við Brjótinn. 

Hefði ekki viljað vera úti á Hala 

„Þegar ég loksins kemst niður að Brjót, þá er báturinn að slitna frá og ég sæti lagi og komst frá. Það gekk svoleiðis yfir bátinn og inni á víkinni var stórsjór. Ég hefði ekki viljað vera úti á Hala í þessu veðri! Ég hafði alltaf haldið að maður gæti ekki lent í neinum vanda með komast inn á Ísafjörð á 200 tonna bát. 

Báturinn var íslaus þegar hann lá í höfninni en við að hjakkast fram víkina hlóðst ísinn á bátinn undir eins, það bara hrúgaðist á hann og radarinn var strax dottinn út og dýptarmælirinn sýndi mér ekki neitt. Ég veit ekki af hverju dýptarmælirinn virkaði ekki en það er örugglega samspil þess að við vorum alltaf á hliðinni og svo hefur hafrótið truflað hann. Ég vissi ekki dýpið og vissi ekki hvar ég var.“




Glittir í Hnífsdal

„Ég gerði mér mjög fljótt grein fyrir því að ef ég ekki hitti inn á Skutulsfjörðinn, þá værum við í verulegum vandræðum. Og án radars og dýptarmælis var það enginn hægðarleikur. Ég sendi strákinn upp á brú að skafa af radarnum og hann fór nokkrum sinnum upp að skafa og það tókst nógu vel í annað skiptið, þannig að ég sá glitta í Hnífsdal í radarnum og það hjálpaði mér mjög mikið. 

Báturinn var farinn að velta langt og orðinn þungur á bárunni enda var kominn rosalegur klaki á hann. Ég hefði ekki trúað því að svo mikil ísing gæti hlaðist á bátinn á ekki lengri tíma. Við hefðum ekkert haft í það að halda sjó og reyna að berja ís einungis tveir á bátnum. Þeir gátu það ekki á Heiðrúnu og voru þeir sex um borð, eða á togaranum sem fórst við Arnarnes. Eina ástæðan fyrir því að við lifðum þetta af var að ég var svo heppinn að hitta inn á Skutulsfjörðinn og sjaldan hef ég orðið fegnari en þegar ég sá glitta í húsin á Norðurtanganum.“ 

DEILA