Ein lægð á dagskránni í dag

Það verður norðaustanátt og snjókoma á Vestfjörðum í dag. Snýst í sunnan 10-18 m/s undir kvöld með éljum. Hlýnar heldur, hiti kringum frostmark þegar þegar líður á daginn.

Í dag er ein lægð á dagskrá og miðja hennar er nú stödd við suðausturströndina og í henni er þrýstingur um 964 mb að því er segir í hugleiðingum Veðurfræðings.

Miðjan fer til norðvesturs yfir landið og verður hún komin á Breiðafjörð síðdegis. Norðan lægðarmiðjunnar er austan hvassviðri eða stormur, en sunnan hennar er vestanátt, strekkingur eða allhvass vindur. Lægðinni fylgir snjókoma um mestallt land, en hún fer hratt yfir þ.a. ekki mun snjóa mjög lengi á hverjum stað. Lægð dagsins er vægari en lægð síðustu helgar, en hún er þó væntanlega nógu öflug til að trufla samgöngur. Í kvöld hefur umrædd lægð fjarlægst okkur og komið skaplegt veður á landinu.

Rólegheitin standa stutt og strax í nótt fer að bæta í vind aftur. Þá nálgast okkur næsta lægð. Sú er annars eðlis, er stór og mikil um sig og miðja hennar heldur sig á djúpunum suður af landinu. Hún sendir hinsvegar skil yfir landið og í þeim er austan stormur og úrkoma. Við þessar aðstæður myndast jafnan skæður vindstrengur syðst á landinu, nánar tiltekið í Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli og þaðan allt austur í Öræfi.

Lægð morgundagsins færir okkur gusu af mildara lofti en verið hefur yfir okkur undanfarið, það þýðir að úrkoman á morgun verður ýmist rigning, slydda eða snjókoma.

Á fimmtudag er útlit fyrir rólegt veður um mestallt land. Á föstudag og laugardag eru síðan horfur á suðvestan kalda eða strekking með éljum sunnan- og vestanlands. Með öðrum orðum, þá er ekki spáð óveðri á landinu frá fimmtudegi til laugardags og eru það tíðindi í sjálfu sér.

DEILA