Dæmdur fyrir líkamsárás gegn barnsmóður sinni

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt mann til 30 daga skilorðbundinnar refsingar fyrir líkamsárás gegn barnsmóður sinni á heimili þeirra í ágúst í fyrra. Í dómnum kemur ekki fram hvar á Vestfjörðum líkamsárásin átti sér stað. Í ákæru var manninu gert að sök að hafa veist að konunni, gripið hana hálstaki, og ýtt henni sem varð til þess að hún féll í gólfið, og hlaut hún við árásina fleiðusár á hálsi, til hliðar við barkann vinstra megin, og þreifieymsli á hálsinn.

Maðurinn mætti ekki til dóms og var dómur lagður á málið þrátt fyrir fjarveru ákærða þar sem framlögð gögn þóttu nægileg til sakfellingar. Maðurinn var eins og áður sagði dæmdur í 30 daga fangelsi en fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð.

DEILA