Dæmdir fyrir brot á tilkynningarskyldu og vopnaburð

Mynd af mönnunum í Hornvík í fyrra.

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt þrjá menn fyrir brot á ákvæðum friðlandsins á Hornströndum. Mennirnir voru allir ákærðir fyrir að hafa ekki tilkynnt sig inn friðlandið, eins og er skylda á tímabilinu 15. apríl til 15. júní. Einn mannanna var að auki ákærður fyrir meðferð skotvopna í friðlandinu. Frá þessu var fyrst greint á vef Ríkisútvarpsins.

Málið kom upp í júní 2016 þegar komið var að mönnunum í Hornvík þar sem þeir voru með vopn og veiðibúnað. Eftir rannsókn lögreglunnar á Vestfjörðum átti málinu að ljúka með sekt en mennirnir höfnuðu sektargreiðslu og því kom málið til dóms.

Mennirnir báru því við að byssan hafi verið með í för þar sem hætta er á ísbjörnum á Hornströndum á þessum árstíma og byssan hafi einungis verið notið þegar selur var skotinn úti á sjó.

Þeir kváðust ekki vita af ákvæðum friðlandsins um tilkynningarskyldu.

Mennirnir voru dæmdir til sektargreiðslu. Þeir tveir sem voru einungis dæmdir fyrir að tilkynna sig ekki inn í friðlandið voru dæmdir til að greiða 50 þúsund krónur í ríkissjóð. Sá þriðji, sem einnig var dæmdur fyrir vopnaburð friðlandinu, þarf að greiða 75 þúsund króna sekt.

DEILA