Brjálað að gera og húsnæðið sprungið

Verkefnastaðan hjá Skaganum 3X hefur sjaldan verið eins góð og ný verkefni streyma inn. Í deiglunni er að stækka húsnæði Skagans 3X á Ísafirði. „Við þurfum að bæta aðstöðuna og sjá hvernig við getum bætt framleiðsluferla og aukið framleiðni. Kerfin sem við erum að smíða eru alltaf að stækka og húsnæðið er sprungið,“ segir Karl Ásgeirsson, rekstrarstjóri Skagans 3X á Ísafirði.

Karl Ásgeirsson. Mynd: Haraldur Guðjónsson.

Vöntun er á íbúðahúsnæði á Ísafirði og fyrirtæki sem er í vexti finnur fyrir því að erfitt er að finna húsnæði fyrir starfsmenn. Innan skamms hefjast framkvæmdir við að innrétta 13 herbergi fyrir starfsmenn á 2. hæð Sindragötu 7. „Það er fyrsta skrefið í þessum húsnæðismálum og næsti liðurinn er að skoða hvað við getum gert með framleiðslusalinn. Hugmyndin er að stækka Sindragötu 5 í áttina að smábátahöfninni en það er á fyrstu skrefum í skipulagsferli,“ segir Karl. Í dag eru rúmlega 60 starfsmenn hjá Skaganum 3X á Ísafirði.

Að sögn er Karls er mikil eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins. „Við vitum af eftirspurninni en það er ekki auðvelt að selja ef þú getur ekki afhent vöruna fyrr en eftir hálft ár og því þurfum við að hraða framleiðsluferlinu.“

Í dag eru starfsmenn Skagans 3X á Ísafirði að smíða í Viðey RE, þriðja og síðasta skipið í röð nýrra togara HB Granda. „Við vorum líka að byrja að smíða í Pál Pálsson sem vonandi siglir inn sundin fljótlega. Þá erum við líka að smíða í uppsjávarverksmiðju í Færeyjum og ofurkælingarkerfi í laxaslátrun Búlandstinds á Djúpavogi. Það er sambærilegt kerfi og við gerðum fyrir Arnarlax og höfum líka selt til Noregs. Þannig að það er brjálað að gera,“ segir Karl.

DEILA