Borðleggjandi að Eggert fái ríkisborgararétt

Páll Magnússon.

„Ég hef þegar kallað eft­ir upp­lýs­ing­um um hvernig málið er vaxið og hver aðdrag­and­inn er,“ seg­ir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, um mál Eggerts Einers Nielson sem hefur verið í fréttum síðasta sólarhringinn. Eggert var synjað um ríkisborgararétt þrátt fyrir að vera fæddur á Íslandi, eiga íslenska móður og hafa búið hér fyrstu sjö ár ævi sinnar og svo aftur síðustu sjö árin.

Páll segir í samtali við mbl.is að hann búist við að fá skýrslu um mál Eggerts síðar í dag og óskað var eftir upplýsingum bæði frá Útlendingastofnun og lögmanni Eggerts.

Hann seg­ir að í fljótu bragði sé málið þannig vaxið að það hljóti að koma til kasta alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar þegar næst verður ákveðið hverj­ir fá ís­lensk­an rík­is­borg­ara­rétt með lög­um. Það er gert tvisvar á ári, fyr­ir þinglok um vor og haust.

„Miðað við það sem ég hef séð um málið finnst mér borðleggj­andi að mál hans fái já­kvæða af­greiðslu,“ seg­ir Páll.

DEILA