Arnarlax hagnaðist um 775 milljónir

Hagnaður af rekstri Arnarlax hf. fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) var 775 milljónir kr. á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri norska laxeldisrisans Salmar sem er stærsti eigandi Arnarlax. Þetta er umtalsverður viðsnúningur frá árinu 2016 þegar rekstartapið var 25 milljónir króna.

Framleiðsla fyrirtækisins rúmlega tvöfaldaðist milli ára, fór úr 4.000 tonnum árið 2016 í 9.700 tonn árið 2017. Á þessu ári er ráðgert að slátra 11.000 tonnum.

Meðalverð afurða Arnarlax var 824 kr/kg sem er 64 krónum meira en meðalverð sem fékkst fyrir eldislax í Noregi.

Í tilkynningu Salmar kemur fram að reksturinn beri þess merki að fyrirtækið er enn í mikilli uppbyggingu og að rekstarleg uppbygging Arnarlax sé ekki eins og best verður á kosið.

Hlutfallslegur rekstarhagnaður Arnarlax er mun minni en af annarri starfsemi Salmar, eða 10 prósent samborið við 36 prósent hagnað af Salmar Midt-Norge og 48 prósent hjá Salmar Nord-Norge.

DEILA