Vantar 10 milljónir til að fjármagna nýtt nám

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Þótt auglýst hafi verið eftir nemendum er enn óljóst hvort ný námsleið í sjávarbyggðafræðum fari af stað við Háskólasetur Vestfjarða. Tíu milljónir vantar til að fjármagna námsleiðina. Frá þessu er greint á vef RÚV og haft Peter Weiss, forstöðumanni Háskólaseturs Vestfjarða, að ákveðið hafi verið að auglýsa eftir nemendum erlendis til að lenda ekki í þeirri stöðu að fá ekki nemendur eftir að fjármagn yrði tryggt og námið auglýst með fyrirvara um fjármögnun. „Við erum í mikilli óvissu en við erum samt nokkuð brattir að þetta gangi upp og verði,“ segir Peter.

Námsleiðin var meðal tillagna svokallaðrar Vestfjarðanefndar sem voru þó ekki fjármagnaðar. Námið verður þverfaglegt og á meistarastigi líkt og Haf- og strandsvæðastjórnun sem er kennd við Háskólasetrið nú. Nýja námsleiðin hefur hlotið fullgildingu frá Háskólanum á Akureyri og hafa 70 prósent hennar verið fjármögnuð til næstu þriggja ára en enn vantar 10 milljónir.

Peter segir námsleiðina vinna með vestfirska sérstöðu, á Vestfjörðum er þriðjungur strandlengjunnar og mikil reynsla af byggðamálum. „Útkoman var að láta námsleiðina frekar heita sjávarbyggðafræði heldur en almenn byggðafræði til að tengja við það hér erum við að fást við strand- og hafsvæði.“

Námsleið í sjávarbyggðafræðum er ein af tillögum starfshóps forsætisráðherra um aðgerðaráætlun sem unnin var árið 2016. Námsleiðin er mikilvægur hluti af byggðastefnu landsins í akademískum skilningi enda kominn tími til að byggðamál verði viðfangsefni á háskólastigi eins og er tilfellið í flestum löndunum í kringum okkur. Fleiri lokaritgerðir um byggðaþróun mun stuðla að upplýstri umræðu um þessi mál. Þar að auki er námsleið í sjávarbyggðafræðum bein byggðaaðgerð fyrir Ísafjörð, enda er reiknað með að 20 nýir námsmenn bætist við árlega.

Stjórn Háskólasetursins tilnefndi undirbúningsnefnd sem þrír háskólakennarar áttu sæti í ásamt forstöðumanni Háskólasetursins.  Þessir þrír voru Þóroddur Bjarnason, prófessor við HA, Guðmundur Hálfdánarson, prófessor við HÍ og Kristinn Hermannsson, dósent við Háskólann í Glasgow. Undirbúningsnefndin lauk vinnu sumarið 2016 og við tók undirbúningur fyrir fullgildingu hjá Háskólanum á Akureyri. Fullgildingarferlinu lauk um áramótin 2016/2017.

DEILA