Útilokar ekki hærri veiðigjöld á stærri útgerðir

Löndun á Ísafirði.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í Morgunútvarpi Rásar tvö spurð út í frétt í Morgunblaðinu í dag um að veiðigjöld á litlar og meðalstórar útgerðir yrðu lækkuð. Bæði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar, og Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, staðfesta þetta í samtali við Morgunblaðið. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að afkomutengja veiðigjöldin.

Katrín segir ekki búið að taka ákvörðun um lækkun veiðigjalda heldur sé verið að horfa til næsta fiskveiðiárs 2018 til 2019.

„Og það er í raun og veru í takt við okkar stefnu að hafa þetta afkomutengt, það er að segja miðað við arðsemina, í raun og veru veiðigjöldin. Og það liggur fyrir að við höfum talið að þetta sé þessi aðferðafræði sem hefur verið notið, nú er komin ákveðin reynsla á hana. Hún bitnar auðvitað talsvert harðar kannski á minnstu fyrirtækjunum sem eiga erfiðara með að bregðast við meðaltalssveiflunni í raun og veru því afkoman miðast við meðaltalið. Það sem er framundan í því er að endurskoða lögin fyrir nýtt fiskveiðiár 2018 og 19. Þannig að sú vinna fer fram á vormánuðum og markmið hennar er að afkomutengja gjöldin í ríkara mæli. Og það mun væntanlega verða til lækkunar á minni fyrirtækin. Ég útiloka ekki að það geti orðið til hækkunar á stærri fyrirtækin. Þannig að það er það sem er framundan.“

DEILA