Sendir frá sér ákall um aðgerðir í vegagerð

„Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ástand þjóðvegakerfisins á Vesturlandi og Vestfjörðum. Á þessu svæði er ástandið sennilega hvað verst á landsvísu og brýnust þörf fyrir úrbætur til að fylgja eftir kröfum almennings og atvinnulífs.“ Svo hefst grein eftir Jón Gunnarsson þingmann Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra. Jón er 1. varaformaður samgöngunefndar.

Hvað vegagerð nefnir Jón helst stóru verkefnin tvö, nýjan veg um Dynjandisheiði og vegagerð í Gufudalssveit.

„Öllum sem til þekkja er ljóst að nýr vegur um Gufudalssveit þolir enga bið. Þessi framkvæmd hefur verið lengi á dagskrá en málið tafist vegna dómsmála og afstöðu Skipulagsstofnunar,“ skrifar Jón og bendir á að kostnaður við að fara þá leið sem Skipulagsstofnun vill fara hleypi kostnaðinum upp um marga milljarða. Að sögn Jóns er verðmiðinn á ódýrasta kostinum í vegagerð í Gufudalssveit um sjö milljarðar króna.

 

Um Dynjandisheiði bendir Jón á að það verði til lítils unnið með gerð Dýrafjarðarganga ef vegagerð á Dynjandisheiði fylgist ekki að.

„Fram hefur komið að kostnaður við Dýrafjarðargöng er áætlaður um 13 milljarðar króna, en þá er Dynjandisheiðin eftir sem er óhjá- kvæmileg framkvæmd ef Dýrafjarð- argöng eiga að nýtast sem skyldi. Áætlaður kostnaður við Dynjandisheiði er 4,5 milljarðar króna. Kostnaður við nauðsynlegar vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e. Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiði og Gufudalssveit, slagar þannig upp í 30 milljarða,“ skrifar Jón.

 

Á norðanverðum Vestfjörðum er líka verk að vinna og Jón bendir á að þar bíða framkvæmdir við Djúpveg og veginn á Ströndum um Veiðileysuháls, en áætlaður kostnaður við þær framkvæmdir er talinn munu nema vel á annan milljarð króna.

„Það blasir við að enginn einn landshluti er í jafn brýnni þörf fyrir bráðaaðgerðir í vegamálum og Vestfirðir. Það er að vonum að íbúar þessa landshluta séu orðnir óþreyjufullir og kalli eftir aðgerðum,“ skrifar Jón.

DEILA