Segir vinnubrögð bæjarstjóra ámælisverð

Stúdíó Dan.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær kaupsamning við Stúdíó Dan um kaup á líkamsræktarstöð fyrirtækisins á Ísafirði. Kaupverðið er 15 milljónir kr. Samningurinn var undirritaður þann 28. desember og í honum kemur fram að helmingur kaupverðs greiðist við undirritun. Kaupsamningurinn er með fyrirvara um samþykki bæjastjórnar sem fékkst í gær. Við þetta gerir Daníel Jakobsson alvarlegar athugasemdir. Í bókun hans í bæjarstjórn segir að vinnubrögð Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra séu ámælisverð og að hann hafi ekki heimild samkvæmt sveitarstjórnarlögum til að til að ganga frá kaupum sem þessum án samþykkis bæjarstjórnar. „Slíkt samþykki lá ekki fyrir og því verður embættisfærsla bæjarstjóra að telja ámælisverð og án heimildar,“ segir í bókun Daníels.

Að mati Daníels getur þessi embættisfærsla skapað hættulegt fordæmi.

Gísli Halldór lagði sjálfur fram svohljóðandi bókun:  „Ég átta mig ekki á ástæðu þess að Daníel leggur fram þessa bókun. Alger einhugur hefur verið um kaupin fram til þessa.“

Kaupsamningurinn var samþykktur í bæjarstjórn með atkvæðum bæjarfulltrúa Í-lista og Framsóknaflokks. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðsluna.

DEILA