Segir ríkisstjórnina eindregna í að efla byggðamálin

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Fulltrúar Byggðastofnunar og átta atvinnuþróunarfélaga um land allt skrifuðu í dag undir nýja samstarfssamninga til næstu fimm ára. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var viðstaddur undirritunina og sagði hann það eindreginn vilja ríkisstjórnarinnar að efla byggðamál og tryggja búsetu vítt og breitt um landið.

Sigurður Ingi sagði þegar sjást í fjárlögum ársins aukin framlög til samgöngumála, heilsugæslustöðva á landsbyggðinni og til menntamála. Framundan væri gerð fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem yrði lögð fram í mars og þar muni einnig sjást enn betur áform ríkisstjórnarinnar um þessi mál sem önnur. Þá sagði ráðherra að meðal verkefna sem tengist sveitarstjórnar- og byggðamálum með beinum í hætti í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar væri að skilgreina hlutverk landshlutasamtaka, styrkja sóknaráætlanir, nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata til að setjast að í dreifðum byggðum, ljúka ljósleiðaravæðingu og að innanlandsflug yrði hagkvæmari kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

DEILA