Refastofninn stendur í stað

Tófa. Mynd: Rúnar Óli Karlsson.

Íslenski refastofninn virðist standa í stað á milli ára. Náttúrufræðistofnun hefur nú lokið við að meta stærð hans til ársins 2015. Samkvæmt niðurstöðum var áætluð lágmarksstærð stofnsins um 7.000 dýr haustið 2015. Refastofninn var í sögulegu hámarki á árunum 2005–2008, að meðaltali um 11 þúsund dýr að haustlagi ár hvert. Eftir það fækkaði refum hratt og árin 2011 til 2015 var stærð stofnsins að meðaltali rúmlega 6.500 dýr. Fækkunin reyndist vera um 40% á tímabilinu 2008-2012 en síðan virðist stofninn hafa staðið í stað.

Matið er byggt á aldursgreiningum 3.585 fullorðinna dýra sem veidd voru á 12 ára tímabili, 2003–2015, en sá árafjöldi er hæsti skráði lífaldur refs á Íslandi. Alls voru þá veidd og skráð 46.290 fullorðin dýr og 24.630 yrðlingar, samkvæmt veiðitölum frá Umhverfisstofnun.

DEILA