Nokkuð um aðstoðarbeiðnir á fjallvegum

Undanfarna daga hefur lögreglu borist aðstoðarbeiðnir frá vegfarendum sem hafa fest bifreiðar sínar í snjó, aðallega á fjallvegum, í umdæminu. Björgunarsveitarfólk hefur aðstoða þessa vegfarendur sem fyrr og vill lögreglan á Vestfjörðum koma á framfæri þakklæti til þessara viðbragðsaðila.

Um helgina var veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokað af öryggisástæðum, vegna snjófloðahættu, eftir fund lögreglu með starfsmönnum Veðurstofu Íslands og yfirmönnum Vegagerðarinnar. Lokunin stóð yfir frá kl.23:00 á laugardagskvöldinu og fram undir hádegið daginn eftir.

Í yfirliti lögreglunnar um verkefni síðustu viku kemur fram að sektarmiði var settur á eina bifreið sem hafði verið lagt við vatnshana sem slökkviliðinu er ætlað að nota ef til eldsvoða kæmi. Slíkt hátterni er bannað og litið mjög alvarlegum augum af lögreglu. Þá var umráðamaður annarrar bifreiðar sektaður fyrir að leggja ólöglega á öðrum stað. Bæði þessi tilvik voru á Ísafirði.

Fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða.

Lögreglunni barst tilkynning um að ekið hafi verið á skilti við eldsneytisdælur Orkunar á Skeiði, á Ísafirði, annað hvort 30. eða 31. desember sl. Ekki er vitað hver olli tjóninu. Lögreglan þiggur allar ábendingar. Hringja á í símanúmerið 444 0400 eða senda skilaboð á Facebooksíðu lögreglunnar.

Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í liðinni viku. Það fyrsta varðaði útafakstur á Steingrímsfjarðarheiði á nýársdag. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin sem um ræðir skemmdist, var þó ökuhæf eftir atvikið. Annað óhappið varð á Ísafirði er tvær bifreiðar rákust saman á nýársdag. Tjón minniháttar og engin slys á fólki. Þriðja óhappið varð aðfarnótt sunnudagsins 7. janúar er vöruflutingabifreið var ekið á kyrrstæða og mannlausa fólksbifreið sem skilin hafði verið eftir á Djúpvegi, skammt frá Reykjanesi. Ökumaður fólksbifriðarinnar hafði fest bifreiðina í snjó á veginum og hafði komist á næsta bæ til að gista. Svo virðist sem engin viðvörunarljós hafi logað á fólksbifreiðinni eða annað sem gaf bifreiðina til kynna á þessum stað. Engann sakaði við áreksturinn en tjón á ökutækjum var töluvert. Rétt er að brýna ökumenn, sem þurfa að skilja við bifeiðar sínar við akbrautir, að kveikja á viðeigandi viðvörunarljósum, oft kallað neyðarblikkljós.

DEILA