Mælt með Bergþóru í Héraðsdóm Vestfjarða

Dómnefnd  hefur skilað umsögn sinni um  umsækjendur um átta embætti héraðsdómara sem auglýst voru laus til umsóknar þann 1. september. Alls barst 41 umsókn um embættin. Samkvæmt niðurstöðu dómnefndar er Bergþóra Ingólfsdóttir hæfust til þess að verða skipuð í eitt embætti dómara sem hafa mun starfsstöð við Héraðsdóm Vestfjarða en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólaráðs og jafnframt vera dómstjóri við Héraðsdóm Vestfjarða.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mun skipa í embættin vegna vanhæfis Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra.

Guðlaugur Þór hefur óskað eftir rökstuðningi dómnefndarinnar í bréfi sem hann sendi nefndinni þann 29. desember. Í bréfinu segir að dómnefnd um hæfi umsækjenda um dómarastöður hafi óljósar skýringar á því hvernig mati nefndarinnar á umsækjendum um stöður átta héraðsdómara var háttað. Skýringarnar „gefa í raun litlar sem engar upplýsingar“, segir í bréfi ráðherra. Hann gagnrýnir matið í tíu liðum í bréfi sem hann sendi dómnefndinni í dag. Þar segir meðal annars að það sæti furðu að dómnefndin hafi ekki notast við stigagjöf – það sé í ósamræmi við fyrri framkvæmd.

Ráðherra hafi ekki forsendur til að meta hvort hann skuli taka undir niðurstöðu nefndarinnar eða hvort hann skuli leggja til skipun annarra dómara, „þar sem rökstuðning skortir að miklu leyti fyrir niðurstöðum nefndarinnar“. „Nefndin virðist ekki hafa lagt forsvaranlegt mat á ákveðna þætti, eins og t.d. reynslu af dómarastörfum, og er erfitt fyrir settan ráðherra að átta sig á því heildstæða mati sem dómnefndin segist hafa framkvæmt,“ segir í bréfinu.

Í ljósi þess skamma tíma sem er til stefnu þar til hinir nýju dómarar þurfa að taka til starfa segist ráðherra ekki ætla að óska eftir nýrri umsögn frá nefndinni, heldur einungis fara þess á leit við hana að hún útskýri betur með hvaða hætti matið var framkvæmt og hvort rétt sé að taka tillit til athugasemda ráðherra. „Loks er óskað skýringa á því hvers vegna fleiri komu ekki til álita að mati nefndarinnar en þeir átta sem lagðir voru til,“ segir í bréfinu.

DEILA