Löng körfuboltahelgi með fjölda leikja

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Það er stutt milli heimaleikja Vestra um þessar mundir og framundan er löng körfuboltahelgi með tveimur meistaraflokksleikjum. Vestri tekur á móti Skallagrími í 1. deildinni Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld í íþróttahúsinu á Torfnesi.. Þetta er sannakallaður toppslagur því Borgnesingar eru efstir í deildinni með 26 stig en Vestri kemur fast á hæla þeirra, ásamt Hamri og Breiðablik, með 22 stig. Leikurinn hefst kl. 19:15 og verða hinir rómuðu Vestraborgarar í boði fyrir leik á litlar 1.000 kr. ásamt drykk.

Mánudaginn 29. janúar verðru svo annar toppslagur þegar Snæfell leikur við Vestra á Ísafirði. Snæfellingar eru með 18 stig í deildinni og eru ekki langt undan Vestramönnum. Leikurinn hefst kl. 19:15 að vanda.

Að auki verða yngri flokkar félagsins verða svo á ferð og flugi um helgina. Tíundi flokkur drengja leikur í A-riðli í þriðju umferð Íslandsmótsins í Valsheimilinu en liðið gengur undir heitinu Vestramenn og er sameiginlegt lið Skallagríms og Vestra. Strákarnir mæta þar heimamönnum, Fjölni, KR og Stjörnunni. Níundi flokkur stúlkna leikur í þriðju umferð í B-riðli að Ásvöllum í Hafnarfirði, þar mæta þær heimastúlkum í Haukum, Snæfelli og Stjörnunni. Stúlkurnar í minnibolta eldri leika einnig um helgina á Íslandsmótinu og fer það mót fram á Selfossi og spila stelpurnar alls fjóra leiki um helgina.

DEILA