Launavísitalan hækkað um 6,9% á einu ári

Launavísitala í desember 2017 er 632,8 stig og hækkaði um 0,2 prósent frá fyrri mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,9 prósent. Kaupmáttur launa í desember 2017 er 145,1 stig og lækkaði um 0,1 prósent frá fyrri mánuði. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 4,8 prósent.

Launavísitala er verðvísitala sem byggist á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands og sýnir breytingar á verði vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Vísitalan tekur mið af breytingum reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Tekið er tillit til hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Hvorki er tekið tillit til tilfallandi yfirvinnu né óreglulegra greiðslna enda er í lögum um launavísitölu ætlast til að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans hafi ekki áhrif á vísitöluna.

 

 

DEILA