Kærður fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna

Lögreglan á Vestjörðum kærði ökumann fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna í vikunni. Sá var stöðvaður í akstri á götum Ísafjarðar aðfaranótt laugardagsins 27. janúar. Einn ökumaður var kærður fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Sá var stöðvaður á Djúpvegi í Strandasýslu. Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar um atburði verkefni lögreglunnar í síðustu viku.

Þá hefur lögreglan haft afskipti af nokkrum ökumönnum vegna ljósabúnaðar bifreiða þeirra sem ekki virkuðu sem skyldi. Lögreglan vill minna ökumenn á að tryggja þennan mikilvæga þátt. Í myrkri eða utan dagsbirtu eins og í veggöngum er mjög bagalegt ef vantar annað fram- eða afturljósið. Skráningarnúmer hafa verið teknar af ökutækjum sem ekki hafa verið færð til lögbundinnar skoðunar.

Eldur varð laus í mannlausri bifreið sem stóð á bifreiðastæði í miðbæ Ísafjarðar að kvöldi laugardagsins 27. janúar. Nærstöddum tókst að slökkva eldinn áður en hann olli verulegu tjóni. Ekki er vitað um eldsupptök en málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Lögreglan á Vestfjörðum vill enn og aftur minna ökumenn vélsleða og annarra torfærutækja, sem ekki er ætluð til aksturs í almennri umferð, á að akstur á götum í þéttbýli er bannaður.

DEILA