Háspenna fram á síðustu sekúndu

Það var rafmagnað andrúmsloft í íþróttahúsinu á Torfnesi í gærkvöldi þegar Vestri tók á móti Snæfelli í 1. deild karla í körfubolta. Leikurinn var jafn og skemmtilegur en lokasekúndurnar voru eins spennuþrungnar og hugsast getur og þegar flautað var til leiksloka stóð Vestri upp sem sigurvegar með minnsta mögulega mun, 76-75

Snæfellingar byrjuðu leikinn betur og Vestramenn voru lengi í gang og Snæfell leiddi eftir fyrsta leikhluta, 18-25. Í öðrum leikhluta fóru hjólin að snúast fyrir heimamenn og þeir jöfnuðu leikinn. Í seinni hálfleik snerist taflið við og Vestri náði forystu og þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var forskot Vestra 11 stig, 71-60.

Gestirnir frá Stykkishólmi voru ekki á því að gefast upp og áttu öflugan lokakafla úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu sekúndu leiksins og hefðu hæglega getað fallið með báðum liðum.

Bestu menn Vestra voru líkt og svo oft áður þeir Nemanja og Nebojsa Knezevic. Nemanja skilaði 20 stigum og 24 fráköstum auk 5 stoðsendingum. Nebojsa skoraði 18 stig og gaf 10 stoðsendingar. Í stigaskorinu kom fyrirliðinn Nökkvi Harðason næstur með 16 stig og Ingimar Baldursson skilaði 15 stigum ásamt frábæru framlagi varnarlega rétt eins félagi hans fremst í vörninni Björn Ásgeir Ásgeirsson.

Næsti leikur Vestra er útileikur gegn Breiðabliki, en eftir þessa umferð eru blikar jafnir Vestra að stigum í öðru sæti með 26 stig og fast á hæla þeirra koma Hamarsmenn með 24 stig og leik til góða.

DEILA