110 skip boðað komu sína

MSC Priziosa við akkeri á Skutulsfirði.

Enn eitt metið verður sett í komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar í sumar. Nú er búið að bóka 110 skipakomur, en sum skip koma oftar en einu sinni. „Við söfnum bara metum,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafna.  Í fyrra voru skipakomurnar 95 og um borð voru um 75 þúsund farþegar. Guðmundur segir að farþegafjöldinn í sumar fari yfir 80 þúsund. „Svo ganga bókanir fyrir 2019 vel og nú þegar komnar 109 bókanir og það stefnir í að við sláum metið strax á næsta ári.“

Aðspurður hvort að höfnin og starfsfólk hafnarinnar ráði við þennan öra vöxt segir Guðmundur að það sé ekki nokkur spurning. „Það verður mikið að gera í sumar og mikið fjör á höfninni.“

Stærsta skipið sem kemur í sumar er MSC Meraviglia og leggst það við akkeri þann 4. ágúst. Um borð geta verið 5.700 manns, sem slagar hátt í íbúafjölda á Vestfjörðum.

Árið 2006 komu 22 skip til Ísafjarðar og hefur fjöldinn því fimmfaldast á rúmum áratug.

 

DEILA