Bæjarfulltrúar Í-listans og Framsóknarflokks hafa lagt fram tillögu að ályktun um að Ísafjarðarbær segi sig úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (BsVest). Tillagan verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar á morgun. Í ályktuninni segir að frá árinu 2014 hafi farið fram „umfangsmikil vinna af hálfu Ísafjarðarbæjar og eftir atvikum BsVest að bæta starf og umgjörð málaflokksins og auka árangur í rekstri og þjónustu.“
Fyrr á árinu óskaði Ísafjarðarbær eftir því að gerast leiðandi sveitarfélag á Vestfjörðum í málaflokki fatlaðs fólks og taka málaflokkinn og starfsemi BsVest yfir og veita þjónustu til annarra sveitarfélaga samkvæmt þjónustusamningum. Hin sveitarfélögin í BsVest lögðust gegn tillögu Ísafjarðarbæjar.
Í ályktun Í-listans og Framsóknarflokks segir að afstaða sveitarfélaganna hafi verið töluverð vonbrigði fyrir Ísafjarðarbæ.
„Það er sannfæring bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar að málaflokknum verði betur fyrir komið með umræddu fyrirkomulagi og því er rétt að Ísafjarðarbær segi sig úr BsVest og undirbúi að taka rekstur málaflokksins að öllu leyti í eigin hendur.“
smari@bb.is