Skammvinn hlýindi

Ausandi rigning á sunnanverðum Vestfjörðum í dag.

Það verður stíf sunnan og suðvestanátt á Vestfjörðum næsta sólarhringinn. Talsverð rigning verður á sunnanverðum Vestfjörðum en minna annars staðar. Síðdegis er spáð sunna 5-13 m/s og hiti verður 3 til 8 stig. Snýst í suðvestan 13-18 m/s í nótt með skúrum eða éljum, en 15-20 m/s síðdegis á morgun með éljagangi og hita 0 til 3 stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir hlýtt loft leikur um landið og rignir víða talsvert þegar líður á daginn, jafn vel úrhelli undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum í kvöld. Hlýindin standa þó stutt yfir, því á morgun kólnar talsvert með útsynningi, skúrum eða éljum. Tölvuspár fyrir vikuna gera ráð fyrir að hlýni um tíma á föstudag, en kólni síðan yfir jólahelgina.

Það er hálka eða hálkublettir á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en á sunnanverðum fjörðunum og á Innstrandavegi er víða flughálka. Þæfingsfærð er norður í Árneshrepp. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

smari@bb.is

DEILA