Tveir fyrrverandi Alþingismenn hér vestra, þau Kristinn H. Gunnarsson og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, hafa stigið fram og halda því nú fram að Agnes M. Sigurðardóttir, biskup yfir Íslandi, sæti einelti vegna umræðu um launakjör hennar og nýfallinn úrskurð Kjararáðs.
Kristinn H. Gunnarsson vill setja sérstakan merkimiða á fjölmiðlamenn, sérstaklega þá á Fréttablaðinu: „#youtoo“. „Sem dögum saman hafa lagt biskup Íslands – konu – í þrálátt og yfirgengilegt einelti.“ Þetta segir Kristinn á Facebooksíðu sinni.
Ólína Kjerúlf Þorvaldsdóttir setur þá athugasemd við pistil Séra Gunnlaugs Stefánssonar sem birtist á Vísi í dag og ber yfirskriftina „Hræsnin um launin“. Séra Gunnlaugur beinir spjótum sínum einkum að forseta ASÍ en honum þykir skjóta skökku við að hann sé að býsnast yfir launum biskups. Ólína segir hræsni rétta orðið.
„Einelti er líka nothæft orð yfir það hvernig látið er við biskupinn þessa dagana. Auðvitað er það engin goðgá þó að biskup Íslands hafi sæmilegan hásetahlut í laun fyrir sitt starf. Og fáránlegast af öllu er að hlusta á menn með sömu laun og hennar fárast yfir þessu,“ segir Ólína.
smari@bb.is