Lionsskatan tilbúin

Lionsklúbburinn á Ísafirði hefur verkað skötu í áratugi.

Ekki er nema rúm vika í Þorláksmessu og þá kætast sælkerar hér vestra og víðar þegar rjúkandi kæst skata verður borin á borð. Eins og mörg undandarin ár stendur Lionsklúbburinn á Ísafirði fyrir skötusölu sem félagar í klúbbnum verka. Að vanda er Sveinn Guðbjartsson skötumeistari og sér til þess að kæsingin sé eftir kúntarinnar reglum.

Kæst skata er umdeildur matur, svo ekki sé meira sagt. Jónas Kristjánsson ritstjóri hefur skrifað um mat og veitingahús um áratugaskeið. Grípum niður í tvo pistla eftir ritstjórann gamalkunna:

„Kominn er sá tími, að ég þori varla í veitingahús. Við þessi ungu erum ekki hrifin af skötulykt, hvað þá að okkur detti í hug að borða hana. Við látum gamlingjunum það eftir. Kemur fram í nýrri skoðanakönnun. Betra væri þó að tjalda yfir eina sandgryfjuna í Mosfellssveit til að stunda í friði þessa sérkennilegu íþrótt. Fjarri venjulegu fólki. Óbeint skötuát er nefnilega af hinu illa eins og óbeinar reykingar. Kæst skata fer í húsbúnað og föt. Finn skötulykt í marga daga eins og reykingalykt.“ – 2011

„Þekki sem betur fer engan, sem vildi bjóða mér í skötuveizlu. Því hef ég engra harma að hefna frá 2008. Fjöldi manns hefur árlega þjáðst af lykt af kæstri skötu.“ – 2009

Fjöldi fólks er í árlegri áskrift að Lionsskötunni frá Ísafirði. Þeir sem vilja panta skötu er bent á að hafa samband við Svein (863 3872), Heiðar (896 8740) eða Erni (892 3696). Lionsmenn senda skötuna um allt land.

smari@bb.is

DEILA