Krefst malbiks á bílastæði Ísafjarðarflugvallar

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar krefst þess að bílastæðin við Flugstöðina við Ísafjarðarflugvöll verði malbikuð á næsta ári í samræmi við loforð sem gefið var á fundi stjórnar Isavia með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í Edinborgarhúsinu 26. ágúst 2016. Í bókun bæjarráðs segir að það sé algjörlega óásættanlegt að bílastæðin séu enn ómalbikuð eftir að flugstöðin hefur verið í rekstri í meira en hálfa öld. Bæjarráð telur einnig brýnt að malbik verði endurnýjað á flugbrautinni og er lag að gera það sumarið 2018 þar sem malbikunarstöð verður í sveitarfélaginu.

Tilefni bókunarinnar eru þær upplýsingar sem hafa borist frá Isavia um að fjármagn á samgönguáætlun hafi verið af skornum skammti og Isavia forgangsraði framkvæmdum sem þjóni fluginu sem slíku. Á það er bent að nú standi yfir framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli þar sem verið er að laga grjótgarð sem hefur skemmst á undanförnum árum.

smari@bb.is

DEILA