Þriðjudaginn 28. nóvember var haldinn íbúafundur í Árneshreppi á Ströndum sem liður í samtali við íbúa vegna verkefnisins Brothættar byggðir, en sveitarfélagið hefur nýverið verið tekið inn í verkefnið. Mjög góð mæting var á fundinn og sköpuðust líflegar og málefnalegar umræður. Þetta kemur fram á vef Byggðastofnunar.
Á fundinum var farið yfir drög að stefnumótun fyrir verkefnið sem unnin höfðu verið af verkefnisstjóra og verkefnisstjórn og komu íbúar athugasemdum sínum á framfæri. Stærstu áherslumál íbúa/verkefnisins tengjast innviðum en fjölmörg önnur atriði verða til úrvinnslu í verkefninu. Íbúar Árneshrepps voru almennt sammála um framgang flestra þessara mála og virðist sem góður samhljómur sé í þeirri baráttu sem framundan er. Ákveðið var að fjölga í verkefnisstjórn og voru þær Vigdís Grímsdóttir og Linda Guðmundsdóttir kosnar sem fulltrúar íbúa, auk þeirra sem fyrir voru. Í kjölfar fundarins standa íbúar fyrir kosningu um heiti á verkefnið og má vænta niðurstöðu innan fárra daga.
Áfram verður unnið að stefnumótun fyrir verkefnið og stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á næstu dögum. Að þeirri vinnu lokinni mun verkefnið færast yfir á framkvæmdastig.
bryndis@bb.is