Fimleikasýning í Bolungarvík

Nú virðist fimleikaíþróttin vera ryðja sér til rúms hér á norðanverðum Vestfjörðum. Í vetur og í fyrra hafa verið fimleikaæfingar á Flateyri og í vor var stofnuð fimleikadeild hjá UMFB í Bolungarvík. Þar var haldið prufunámskeið sem vakti mikla lukku og í kjölfarið var deildin stofnuð. Það er Laddawan Dagbjartsson íþróttakennari sem þjálfar deildina með dyggri aðstoð dætra sinna, Lilju og Marín, Pálínu Jóhannsdóttur formanns og foreldra.

Iðkendur eru 40-50 og koma frá Ísafirði og Bolungarvík.

Allir eru launalausir við deildina og fara öll æfingagjöld í tækjakaup en þegar hefur verið fjárfest í lofttrampólíndýnu sem er væntanleg en það er fjárfesting upp á 650.000. Að sögn Pálínu mun dýnan breyta aðstöðu iðkenda gríðarlega. Hún segir mikinn áhuga hjá börnunum og metnaður Laddawan mikill en hún sé einstök og drífandi í starfinu öllu.

Á sunnudaginn kl. 12:00 er sýning hjá fimleikadeildinni þar sem sýndur verður boogie-,  barbie-,  og up-town funk fimleikadans ásamt allskonar hoppum og heljarstökkum. Sýningin verður í íþróttahúsinu Árbær, þar verður enginn aðgangseyrir en deildin tekur glöð við styrkjum til tækjakaupa ef einhverjir vilja styðja við nýja íþróttagrein.

bryndis@bb.is

DEILA