Byggja atvinnuhúsnæði í óleyfi

Fyrirtæki Walvis ehf á Flateyri fékk á dögunum stöðuleyfi fyrir tvo gáma á lóðinni Hafnarbakki 3 þar sem vinnsluhús fyrirtækisins stendur.  Fljótlega hófust svo framkvæmdir við byggingu 250 fm húss fyrir saltfiskvinnslu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er þakið lagt ofan á gámana og þeir nýttir sem veggur. Framkvæmdin var tilkynnt til Ísafjarðarbæjar enda ekki sótt um leyfi til Skipulags- og mannvirkjanefndar sveitarfélagsins eins og lög gera ráð fyrir.

Fyrirtækið skilaði þá inn uppdráttum vegna framkvæmdanna og byggingarleyfisumsókn sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingafulltrúa 8. desember en umsókninni var hafnað á þeim forsendum að stækkunin samræmis ekki skilmálum gildandi deiliskipulags og uppfyllir ekki skilyrði byggingareglugerðar 112/2016, greinar 9.6.11, 9.6.13 og 9.6.16

Grein 9.6.11 fjallar um brunahólfun, 9.6.13 fjallar um brunamótstöðu hurða, hlera og glugga og 9.6.16 fjallar um vörn gegn útbreiðslu elds frá lægra liggjandi þaki.

Ekki virðast gerðar athugasemdir við notkun gáma sem vegg og aðspurður segir Axel R. Överby skipulags- og byggingafulltrúi Ísafjarðarbæjar að þessi byggingarmáti gæti samrýmst lögum. Byggingin yrði alltaf að uppfylla kröfur byggingareglugerðar hvað varðar burðarþol, eldvarnir og brunahólfun og löggiltur burðarþolshönnuður verður að ábyrgjast burðarþol.

Stöðuleyfi fyrir gáma eru gefin út til eins árs í senn en myndu í þessu tilfelli verða teiknuð inn í burðarvirki hússins og partur af húsinu sjálfu, segir Axel og þurfi þar af leiðandi ekki lengur stöðuleyfi.

„Það er ekkert í byggingareglugerðinni sem heimilar skýli til bráðabirgða, í þessu tilfelli þarf að uppfylla skilyrði skipulags- og byggingareglugerðar eins og um fullgilda byggingarleyfisumsókn sé að ræða. Þá er ekki gefinn afsláttur á kröfum brunavarna, minnugur atburða um síðustu helgi.“ Segir Axel að lokum.

bryndis@bb.is

DEILA