Betri Bolungarvík

Baldur Smári Einarsson

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2018 á fundi sínum í gær. Fjárhagsáætlunin ber merki þess góða árangurs sem náðst hefur í stjórnun fjármála bæjarins á undanförnum árum og skapar grunn að betri Bolungarvík. Gert er ráð fyrir 19 milljón króna afgangi af rekstri árið 2018 og verður svokallað veltufé frá rekstri 130 milljónir sem skapar svigrúm til framkvæmda. Skuldahlutfallið verður 110% sem er vel fyrir neðan þau 150% mörk sem sveitarstjórnarlög kveða á um og hefur þetta hlutfall lækkað jafnt og þétt undanfarin ár.

Nýr leikskóli

Stærsta verkefni næsta árs verður stækkun leikskólans Glaðheima við Hlíðarstræti en fyrsti áfangi þeirrar framkvæmdar mun kosta 75 milljónir. Þessi framkvæmd mun valda byltingu í aðbúnaði leikskólabarna í Bolungarvík og á skólinn eftir uppfylla þarfir samfélagsins um að taka inn yngri börn en gert er í dag ásamt því að hægt verður að fjölga barnafjölskyldum í bænum, en íbúum í Bolungarvík hefur fjölgaði á síðasta ári og vonir standa til að með uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi muni íbúum halda áfram að fjölga. Gert er ráð fyrir að stækkun leikskólans fari í útboð í febrúar og að framkvæmdir geti hafist í sumarbyrjun.

Gatnaferð og fegrun umhverfis

Gatnagerð verður einnig fyrirferðarmikil í framkvæmdum næsta árs en um 40 milljónum verður varið í nýtt malbik á götur bæjarins. Þannig eiga íbúar í hverfinu fyrir ofan Stigahlíð eftir að sjá kærkomnar endurbætur á götum sínum en einnig verður haldið áfram að laga Hafnargötuna, Vitastíginn og neðsta hlutann af Höfðastíg auk þess sem kaflinn frá Grundargarði að Þuríðarbraut verður malbikaður. Jafnframt verður farið í aðrar framkvæmdir en þar ber helst að nefna  endurnýjun á stálþili Brimbrjótsins sem þó er háð fjárveitingum frá Hafnabótasjóði. Á meðal ánægjulegra mála sem bæjarstjórn hefur samþykkt með fjárhagsáætlun 2018 eru aukin framlög til fegrunar bæjarins og til menningarmála og æskulýðsmála. Einnig á að ráðast í aukið viðhald í grunnskólanum og tækjabúnaður í íþróttamiðstöðinni Árbæ verður endurnýjaður að stórum hluta.  Þá má geta þess að gjöld vegna hundahalds lækka verulega milli ára og eru nú á svipuðu róli og í nágrannasveitarfélögum.

Betri Bolungarvík

Að lokum er gaman að segja frá því að á nýju ári verður kynnt verkefnið „Betri Bolungarvík“ en það er verkefni sem gefur kost á auknu íbúalýðræði. Þannig munu íbúar geta komið fram með tillögur að framfaraverkefnum sem kosið verður um í rafrænni kosningu. Settur verður upp hugmynda- og kosningavefur á heimasíðu bæjarins og geta íbúar kosið þar um þau verkefni sem þeir vilja að fái framgang á árinu 2018.

Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins hefur aldrei verið betri

Mikið átak hefur verið unnið síðustu ár í að koma fjárhag bæjarins í gott horf. Fjárhagsáætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir að fjárhagsleg staða bæjarfélagsins haldi áfram að batna þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Á undanförnum árum hefur skuldahlutfall lækkað verulega. Skuldir á hvern íbúa hafa lækkað og hefur endurgreiðslutími skulda sveitarfélagsins lækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Heilt yfir eru allar kennitölur sem sveitarfélög miða við í rekstri sínum að batna og benda til að rekstur sveitarfélagsins er sífellt að verða betri. Ef áfram er haldið á sömu braut munu gefast enn meiri tækifæri í framtíðinni til að sækja fram og gera Bolungarvík að betri bæ.

Bolungarvíkin okkar er fegurst allra og hér finnst okkur best að búa. Með Betri Bolungarvík horfum við brosandi fram á veginn enda eru bjartir tímar framundan. Í Víkinni fögru liggja tækifærin og þau ætlum við okkur að nýta samfélaginu til hagbóta.

Með ósk um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Baldur Smári Einarsson

Formaður bæjarráðs Bolungarvíkur

DEILA