Auglýst eftir framkvæmdastjóra

Frá stofnfundi Vestfjarðastofu fyrir viku.

Stjórn nýstofnaðrar Vestfjarðastofu ses. auglýsir eftir framkvæmdastjóra til þess að leiða starfsemi Vestfjarðastofu sem tók til starfa 1. desember sl.  Vestfjarðastofa varð til við sameiningu verkefna sem áður heyrðu undir Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hf.

 

Markmið Vestfjarðastofu er að efla atvinnulíf á Vestfjörðum, stuðla að velferð íbúa, fjölbreyttu menningarstarfi og styrkja Vestfirði sem búsetukost og áfangastað ferðamanna. Markmiði sínu hyggst Vestfjarðastofa ná með öflugu samstarfi atvinnulífs, sveitarfélaga, ríkisvalds og stoðkerfis hins opinbera.

 

Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu leiðir starfsemina og er ábyrgur gagnvart stjórn fyrir yfirstjórn og daglegum rekstri Vestfjarðastofu í umboði stjórnar.  Hann undirbýr stefnumörkun, rýnir markmið og aðgerðir og vaktar innleiðingu stefnu Vestfjarðastofu í samvinnu við stjórn og starfsmenn. Framkvæmdastjóri undirbýr rekstrar- og starfsáætlun Vestfjarðastofu og ber ábyrgð á að reksturinn rúmist innan gildandi áætlana á hverjum tíma.

 

Menntunarkröfur

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði, framhaldsmenntun æskileg
  • Haldbær reynsla af rekstri og farsæl stjórnunarreynsla
  • Reynsla af stefnumótunarvinnu og innleiðingu stefnu er skilyrði
  • Þekking á opinberri stjórnsýslu/málefnum sveitarfélaga er æskileg

 

Kröfur um hæfni

  • Leiðtogahæfni og góð hæfni í mannlegum samskiptum
  • Geta til að sýna frumkvæði og rík skipulagshæfni
  • Sjálfstæði í vinnubrögðum og geta til að taka þátt í mótun og stjórnun breytinga
  • Rík aðlögunarhæfni og geta til að starfa undir álagi
  • Hæfni til að miðla flóknum upplýsingum á einfaldan hátt í töluðu og rituðu máli

Umsókn þarf að fylgja starfsferilskrá og einnar blaðsíðu kynningarbréf þar sem á  kerfisbundinn hátt er gerð grein fyrir því hvernig viðkomandi uppfyllir hæfniskröfur starfsins.

DEILA