Alvarleg staða sem krefst aukinna rannsókna

Árlegur fundur um niðurstöður stofnmælinga, ráðgjöf og rannsóknir á rækju í Ísafjarðardjúpi með hagsmunaðilum og fulltrúum Hafrannsóknastofnunar var haldinn á Ísafirði í síðustu viku. Á fundinum kynntu fulltrúar Hafrannsóknastofnunar niðurstöður nýafstaðinnar stofnmælingar á rækju í Djúpinu. Byggt á þeim niðurstöðum ráðlagði stofnunin að engar veiðar yrðu heimilaðar á þessu fiskveiðiári.

Á vef Hafrannsóknastofnunar kemur fram að á fundinum lýstu rækjusjómen yfir áhyggjum sínum af ástandinu og sinni sýn á stöðu og útbreiðslu rækjunnar í Djúpinu. Útbreiðsla rækju hefur dregist saman á undanförnum árum, á sama tíma og magn fisks hefur aukist mikið sem og hitastig sjávar hækkað. Hagsmunaaðilar töldu brýna nauðsyn á að rannsaka betur áhrif afráns og umhverfisþátta á vöxt og viðgang rækju.

Hafrannsóknastofnun kynnti einnig niðurstöður mælinga á þvernetspoka við rækjuveiðar. Niðurstöður mælinganna benda til að þvernetspokinn skilji betur út smárækju og ungviði en leggpokinn sem notaður hefur verið við rækjuveiðar hingað til. Jafnframt voru ræddar ýmsar tæknilegar lausnir á því hvernig best væri að skilja út undirmálsfisk sem veiðist sem meðafli með rækjunni.

smari@bb.is

DEILA