25 viðburðir á tæpum þremur mánuðum

Frá húsakynnum Blábankans.

Blábankinn á Þingeyri opnaði þann 20. september og hefur því starfað í tæpa þrjá mánuði. Mikil þátttaka hefur verið í starfinu, bæði frá heimafólki og gestum í Dýrafirði. Frá opnun hafa verið haldnir 25 viðburðir í eða á vegum Blábankans, allt frá námskeiðum til funda, kynninga, tónleika og sýninga. Þátttakendur hafa verið um 300, auk þess sem á annað hundrað mættu á opnunina sjálfa.

Blábankinn er tilraunaverkefni á Þingeyri sem miðar að því að leggja grunn að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á Facebook hópnum Blábankinn á Þingeyri en einnig er starfrækt enskumælandi Facebook síða The Blue Bank.

Tækni, lýðræði og gervigreind

Innan veggja Blábankans fer fram verkstjórn á tveimur nýsköpunarverkefnum undir merkjum Karolina Fund. Annarsvegar verkefni stutt af Tækniþróunarsjóði sem miðar að því að nýta gervigreind við fjármálatækni og hinsvegar rafrænt lýðræðisverkefni að frumkvæði finnskra stjórnvalda. Sérfræðingar á sviði vélnáms, forritunar og markaðssetningar hafa dvalið í Blábankanum við þessi verkefni.

Stafræn framleiðsla og japönsk byggðarþróun

Arkítektinn Yasuaki Tanago hefur undanfarið unnið verkefni sem lítur að því að nýta reynslu japana af byggðarmálum dreyfðari byggða á Þingeyri. Þá hefur FabLab á Ísafirði unnið með Blábankanum við að setja upp sköpunarsmiðju og m.a. staðið á kynningu á þrívíddarprentun.

Þjónusta

Blábankinn hefur gert samstarfssamninga við Landsbankann, Ísafjarðarbæ, Bókasafnið Ísafirði og VerkVest um aukna þjónustu við íbúa Dýrafjarðar sem framkvæmd er af starfsfólki Blábankans. Þá veitir Blábankinn almenna tölvuaðstoð tvisvar í viku.

smari@bb.is

DEILA