„Má ég fá lánaða húfuna þína“

Guðni Th. Jóhannesson og Isabel Alejandra Díaz

Við setningu alþings í dag gerði Guðni Th. Jóhannesson #metoo byltinguna að umtalsefni og las upp prósaljóð meðframbjóðanda síns, Elísabetar K. Jökulsdóttur.

„Það eru allskonar venjulegir menn jafnvel vinir mínir að kvarta undan þessari metoo bylgju sem er í gangi, þeir segja „ekkert má maður“ og „hvað má eiginlega“ og ekkert má maður lengur. Við þá vil ég segja, það má ekkert, maður biður um leyfi fyrir öllu;

Má ég sýna þér hvað ég var að skrifa.

má ég fá tannkremið,

má ég fá mjólkina,

má ég knúsa þig,

má ég fá lánaða húfuna þína..“

Nei þýðir nei, sagði forsetinn, hingað og ekki lengra, við verðum að hlusta og gera betur.

Guðni ræddi líka tjáningar- og skoðunarfrelsi en benti á gagnrýni er eitt en óhróður er annað, hann ræddi hættuna sem felst í fölskum fréttum og um réttinn til þess að vera ósammála.

Stefnuræða forsætisráðherra.

Í kvöld flytur Katrín Jakobsdóttir stefnuræðu sína og í kjölfarið verða umræður um hana. Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir og munu eftirfarandi þingmenn taka til máls:

Ræðumenn fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð verða Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í fyrstu umferð, í annarri Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og í þriðju umferð Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Ræðumenn Samfylkingarinnar verða í fyrstu umferð Logi Einarsson, 5. þingmaður Norðausturkjördæmis, í annarri Helga Vala Helgadóttir, 4. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, og Guðmundur Andri Thorsson, 4. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í þriðju umferð.

Ræðumenn fyrir Miðflokkinn verða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 3. þingmaður Norðausturkjördæmis, í fyrstu umferð, í annarri Birgir Þórarinsson, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, og í þriðju umferð Anna Kolbrún Árnadóttir, 8. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Ræðumenn fyrir Sjálfstæðisflokk verða Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrstu umferð, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, 5. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri umferð og Ásmundur Friðriksson, 4. þingmaður Suðurkjördæmis, í þriðju umferð.

Fyrir Pírata tala Halldóra Mogensen, 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrstu umferð, Jón Þór Ólafsson, 8. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í annarri umferð, og Helgi Hrafn Gunnarsson, 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í þriðju.

Fyrir Framsóknarflokk tala Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í fyrstu umferð, í annarri Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og í þriðju umferð Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Fyrir Flokk fólksins tala Inga Sæland, 8. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, í fyrstu umferð, Ólafur Ísleifsson, 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri umferð, og Guðmundur Ingi Kristinsson, 12. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í þriðju.

Ræðumenn Viðreisnar verða í fyrstu umferð Þorgerður K. Gunnarsdóttir, 7. þingmaður Suðvesturkjördæmis, Þorsteinn Víglundsson, 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri og í þriðju umferð Hanna Katrín Friðriksson, 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.

Umræðunum verður bæði útvarpað og sjónvarpað og hefjast kl. 19:30

bryndis@bb.is

DEILA