Vill skoðanakönnun frekar en vefkosningu

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Eins og áður hefur verið greint frá ætlar Ísafjarðarbær að standa fyrir íbúakönnun þar sem kanna á hug íbúanna til framtíðarsýnar fyrir Sundhöll Ísafjarðar. Síðasta vetur var hugmyndasamkeppni um breytingar á Sundhöllinni og sitt sýnist hverjum um tillögurnar eins og gengur og einnig eru skiptar skoðanir um þá ráðstöfun að fjárfesta fyrir fleiri hundruð milljónir í 16 metra langri sundlaug.

Bærinn hefur samþykkt tilboð Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í gerð könnuninnar. Á fundi bæjarstjórnar í gær lagði Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, áherslu á að farið verði í skoðanakönnun í stað vefkosningu á vef Ísafjarðarbæjar. Daníel segir að markmið með íbúakönnun hljóti að vera að komast að vilja hins almenn íbúa og skoðanakönnun þar sem úrtakið er 500-1000 manns fái þann vilja betur fram en vefkosning þar sem þátttakendur þurfa að hafa Íslykil sem hann telur að verði hindrun fyrir eldri borgara. Að auki telur hann líkur á að fylkingar fari í „kosningagír“ og reyni að vinna kosningarnar sem hann segir að muni leiða til sundrungar í samfélaginu.

Á fundi bæjarstjórnar var málinu vísað til bæjarráðs sem fékk heimild til að afgreiða það.

DEILA