Togarar stranda í nóvember 1912

Crusader H 5. Mynd: Handels & Söfart museets.dk

Nóvemberveðrin hafa oft verið skæð og fengum við að kenna á einu slíku á sunnudaginn. Þann 6. nóvember 1912 gerði mikið ofsaveður á Vestfjörðum og olli talsverðum usla. Nokkrir togarar leituðu skjóls í Önundarfirði og lágu þar við akkeri meðan veðrið gekk yfir. Þrír breskir togarar slitnuðu upp og ráku á land í firðinum. Tveir komust á flot í næsta flóði en sá þriðji, Hulltogarinn Crusader H 5, sat fastur rétt innan við Flateyri. Togarinn var dreginn á flot af björgunarskipinu Geir, talsvert skemmdur en lappað var upp á hann til bráðabirgða á Flateyri og síðan dró Geir hann til Reykjavíkur.

Um þennan tíðindamikla sólarhring má lesa á bloggsíðu Þórhalls S. Gjöveraa, þar er líka birtur kafli úr bókinni Þrautgóðir á raunastund X bindi um þennan atburð. Þar segir svo:

Fyrstu daga nóvembermánaðar árið 1912 var ríkjandi norðan og norðaustan hvassviðri við Vestfirði. Leituðu þá margir erlendir togarar í var inn á firðina þar. 6 nóvember gerði ofsaveður á þessum slóðum, sem stóð aðeins í nokkrar klukkustundir. Slitnuðu þá sex erlendir togarar upp og rak þá í strand. Þrír þessara togara strönduðu við Önundarfjörð. Náði einn þeirra sér strax á flot aftur og sigldi þá til hafs. Annar komst á flot á næsta flóði, en nokkrar skemmdir höfðu orðið á honum svo hann var ósjálfbjarga. Þriðji togarinn sat fastur á strandstað sínum, en skipshöfnin komst í land á björgunarbátnum. Tveir breskir togarar strönduðu við Patreksfjörð.
Áhafnir þeirra komust hjálparlaust í land þegar óveðrinu tók að slota. Sjötti togarinn strandaði svo við Ísafjörð. Var sá þýskur. Dvaldi áhöfn hans um borð næsta sólarhring, en fór þá í land, þar sem útlit var á að veður versnaði aftur. Björgunarskipið Geir var sent frá Reykjavík til þess að aðstoða togaranna. Kom það vestur 9. nóvember. Dró Geir fyrst út togarana sem strandað höfðu við Patreksfjörð, síðan togarann sem enn var fastur í Önundarfirði og loks togarann sem strandaði við Ísafjörð.

Með færslu Þórhalls fylgja allgóðar myndir af Crusader á strandstað í Önundarfirði.

bryndis@bb.is

DEILA