Stefnt á opnun í næstu viku

Skíðasvæðið í Tungudal.

Troðaramenn skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar hafa verið önnum kafnir síðustu daga og stefna á opnun skíðasvæðisins í næstu viku. „Við höfum verið að troða þetta niður og fanga snjóinn sem hefur komið síðustu daga og þetta lofar góðu,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðasvæðisins. Að sögn Hlyns er aðallega troðið eftir að skyggja tekur á daginn. „Í svona skafrenningi þá sést ekki neitt í birtu. Það er betra að eiga við þetta í myrkrinu enda öflugir kastarar á troðaranum,“ segir hann.

Samkvæmt veðurspá gengur vindur niður um helgina og spáir fínasta veðri. Hlynur segist þurfa örfáa daga í góðu veðri til að fleyta yfir skellur þar sem snjórinn er þunnur og gera svæðið klárt fyrir opnun. „En við ættum að geta opnað í næstu viku.“

Spiltroðari sem skíðasvæðið fékk í fyrra hefur komið að góðum notum að sögn Hlyns. „Það var tímafrekt að troða lyftusporið en spiltroðarinn gerir það mun auðveldara. Það var svo lítill snjór síðasta vetur að hann fékk ekkert að njóta sín en hann hefur komið að góðum notum núna.“

Hlynur bendir á að gönguskíðasvæðið er orðið mjög flott og nægur snjór á Seljalandsdal. Búið er að troða 3 og 5 km brautir.

smari@bb.is

DEILA