Standardar og frumsamið í heimilislegum búning

Ef tónelskir eru á höttunum eftir ástkærum sönglögum, djassskotnum íslenskum standördum og frumsömdu efni, allt í léttum og heimilislegum búning, þá geta þeir gert margt vitlausara en að festa sér diskinn Randalín sem systkinin Elín og Halldór Smárabörn gáfu út á dögunum. Diskurinn er gefinn út til að heiðra minningu móðurömmu þeirra, Elínar Þorbjarnardóttir, en 100 ár voru frá fæðingu hennar þann 16. nóvember.

„Við systkinin höfum spilað og sungið saman síðan við munum eftir okkur og alltaf langað til að gefa út plötu með okkar eftirlætis lögum. Það er svo foreldrum okkar, Helgu Friðriksdóttur og Smára Haraldssyni, að þakka að þetta hefur nú orðið að veruleika. Þau vildu gera eitthvað til að heiðra minningu móður sinnar og tengdamóður, Elínar Þorbjarnardóttur, ömmu okkar, sem hefði orðið 100 ára 16. nóvember 2017. Platan er því helguð minningu ömmu Elínar sem alltaf studdi við bakið á okkur í lífi og list, eins og reyndar foreldrar okkar báðir,“ segir í kynningu.

Elín Smáradóttir útskrifaðist með bakkalárgráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2001 og með mastersgráðu í Drama and Performance Studies frá University College Dublin árið 2006. Elín var auk þess búsett í Vínarborg í nokkur ár og fór hún þá í söngtíma hjá Rannveigu Bragadóttur prófessor við Tónlistarháskólann í Vín og einnig til djasssöngkonunnar Evu-Mariu Valenta. Elín starfar sem sýningarstjóri í Þjóðleikhúsinu. Hún er gift Júlíusi Karli Einarssyni verslunarmanni og óperusöngvara og eiga þau tvær dætur, Valfríði Helgu og Áslaugu Brynhildi.

Halldór Smárason starfar sem tónskáld og píanóleikari. Hann lauk bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum við Manhattan School of Music vorið 2014, þá sem Fulbright-styrkþegi. Halldór hefur unnið með mörgum þekktum listamönnum og hópum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ensemble intercontemporain og Útvarpshljómsveitum Parísar og Stuttgart. Halldór hefur komið margoft fram við hin ýmsu tilefni, ýmist einn eða með öðrum, og leikið inn á hljómdiska. Halldór er trúlofaður Thelmu Lind Guðmundsdóttur og eiga þau soninn Óliver Mugg.

Elín og Halldór eru bæði fædd og uppalin á Ísafirði. Þau eru bæði stúdentar frá Menntaskólanum á Ísafirði og stunduðu bæði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Platan er sannkallað samvinnuverkefni Ísfirðinga og Bolvíkinga. Á trommur spilar Kristinn Gauti Einarsson frá Bolungarvík og bassann plokkar sveitungi Kristins, Valdimar Olgeirsson. Upptökum stjórnaði Ísfirðingurinn Kristján Sigmundur Einarsson.

smari@bb.is

DEILA