Skurðlæknislaust í desember

Heilbrigðisstofnun Vestfjarðar bíður enn svara frá ráðuneytinu varðandi ráðningu nýs forstjóra.

Ekki hefur tekist að fá skurðlækni til starfa við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í desember. Hallgrímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að til þessa hafi tekist að fá skurðlækna vestur en þeir hafa komið í tímabundnar afleysingar. „Þetta er mjög bagalegt ástand en hefur eingöngu þau áhrif að tvær til þrjár barnshafandi konur gætu þurft að fara til Reykjavíkur til að fæða og þurfa þá að dvelja í Reykjavík í eina eða tvær vikur,“ segir Hallgrímur. Ekki er heimilt nema í undantekningartilvikum að taka á móti börnum nema skurðlæknir sé tiltækur ef eitthvað óvænt kemur upp á sem kallar á keisaraskurð.

Hallgrímur segir að strax á nýju ári sé útlitið gott. „Það kemur skurðlæknir í byrjun janúar og fram á vorið er líta mönnunarmálin vel út. Þá erum við í samningaviðræðum við Landspítalann að dekka hluta af þessu og þá kæmu skurðlæknar af skurðdeild spítalans vestur. En það er ekki komin niðurstaða í þær samningaviðræður,“ segir Hallgrímur.

Almennt um mönnunarmál lækna við Heilbrigðisstofnunarinnar segir Hallgrímur að þau séu í góðu horfi og betri en hafa verið um árabil, ef frá er talinn fyrrnefndur vandi með skurðlækni í desember. „Heilsugæslan á Ísafirði er mönnuð fram á næsta haust og heilsugæslan á Patreksfirði er mönnuð út næsta ár. Sömuleiðis höfum við samið við meltingarlækni um að koma vestur og sjá um speglanir.“

smari@bb.is

DEILA