Sjávarútvegsráðstefnan í næstu viku

Áttunda Sjávarútvegsráðstefnan fer fram í næstu viku og kennir ýmissa grasa á dagskrá hennar. Dagskráin er sett fimmtudaginn 16. nóvember kl. 10:15 með málstofu sem kallast „Er hægt að fimmfalda útflutningsverðmæti bláa hagkerfisins“ og eftir hádegi eru málstofur þar sem fjallað er um kröfur kaupenda og hvort þær eru uppfylltar, um framtíð ferskfiskvinnslu, um öryggismál sjómanna, um mikilvægi rannsókna og nýsköpunar, um upplýsingatækni og um þróun og framtíðarsýn í gæðamálum.

Á föstudeginum halda málstofur áfram og þar er fjallað um hugverkarétt í sjávarútvegi, um umbúðir og áhrif þeirra á umhverfið, um menntun í sjávarútvegi, um tækifæri og áskoranir á mörkuðum og um fjórðu iðnbyltinguna. Síðast en ekki síst er svo stór málstofa í lokin um fiskveiðistjórnunarkerfi og veiðigjöld annara þjóða.

Sjávarútvegsráðstefnan var fyrst haldin í september 2010 og hefur verið haldin á hverju ári upp frá því. Markmið sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversneið af greininni til að vinna að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og vonast er að hún verði uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

bryndis@bb.is

DEILA