Sigga ljósa

Mynd: Björgunarsveitin Björg

Björgunarsveitin Björg á Suðureyri vígði nýja björgunbát sveitarinnar á laugardaginn og gaf honum nafn við hátíðlega athöfn. Báturinn fékk nafnið Sigga Ljósa í höfuð Sigríðar Jónsdóttur ljósmóður.

Á facebooksíðu Bjargar kemur fram að Sigríður Jónsdóttir, Sigga Ljósa eins og húna var kölluð fæddist 7. október 1889 að Stað í Grunnavík. Hún lauk ljósmæðraprófi 1929 fertug að aldri og var eldri en gengur og gerist með nýútskrifaðar ljósmæður. Sama ár fluttist hún til Suðureyrar ásamt manni sínum, Ásgeiri Jónssyni vélstjóra frá Ísafirði. Með þeim fluttu fjögur börn Ásgeirs, en Sigríður ól aldrei börn.

Sigríður fór oft að vitja sængurkvenna þegar veður voru slæm og aðstæður erfiðar. Í bókinni Íslenskar ljósmæður sem kom út árið 1964 talar hún um að hafa farið fyrir Gölt að vetri til eftir að það var róið með hana yfir fjörð og gekk hún svo fjöruna og þurfti að sæta lagi í briminu. Í annarri ferð á leið til Galtarvita að taka á móti barni lenti hún í skriðuföllum en sakaði ekki. Það gekk því á ýmsu í hennar starfi.

Í Súgfirðingarbók segir Guðsteinn Þengilsson um Sigríði ,,Ég á mikið að þakka samstarf hinnar öldnu og reyndu ljósmóður Súgfirðinga, Sigríði Jónsdóttur. Henni fylgdi slík gæfa, að aldrei hlekktist neitt verulega á við fæðingar, sem hún var nærri. Sú rósemi sem hún ávalt sýndi í verkaði sérstaklega vel, bæði á lækni og sængurkonu. Á henni sást aldrei fum eða fát, heldur vann hún ákveðið og með því öryggi sem aðeins fæst af langri reynslu“

Sigríður var ljósmóðir Súgfirðinga í 34 ár og á þeim tíma tók hún á móti næstum 400 börnum og tók meðal annars á móti börnum barna sem hún hefði tekið á móti. Súgfirskar konur héldu mikið upp á Sigríði og færðu henni gjafir á 25 ára starfsafmæli hennar og einnig á sjötugsafmæli hennar.

Hús það sem hún bjó lengst í, í þorpinu er jafnan nefnt Ljósukot en Sigríður lést 1970

Báturinn „Sigga Ljósa“ er af gerðinni Atlantic 75 og kemur frá Breska sjóbjörgunarfélaginu RNLI. Með tilkomu þessa báts er nú búið að þétta net sjóbjörgunarbáta á norðanverðum Vestfjörðum svo að sómi er að. Báturinn er 7,5 m á lengd, 2,64 á breidd og búinn tveimur 90hp mótorum og gengur ca34 mílur við bestu aðstæður.

bryndis@bb.is

DEILA