Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að kalla til íbúaþings í sveitarfélaginu helgina 17. – 19. nóvember. Hugmyndin er að flétta saman helgardagskrá þar sem „samvinna, félagslíf, gleði, sameiginlegar og andstæðar hugmyndir og ástríða fyrir sveitarfélaginu er blandað saman eina helgi í nóvember,“ eins og segir á heimasíðu Súðavíkurhrepps. Útkoman er á að vera sameiginleg framtíðarsýn, gildi og markmið Súðvíkinga inn í framtíðina.
Dagskráin verður gróflega á þessa leið:
Á föstudeginum verður Pizzuhlaðborð á Jóni Indíafara kl. 18. Barnadiskótek í skólanum kl. 20 undir stjórn unglingana í félagsmiðstöðinni.
Sjálft þingið fer fram í Samkomuhúsinu í Súðavík laugardaginn 18. nóv. og sunnudaginn 19. nóv.
Sigurborg Kr. Hannesdóttir heldur utan framkvæmd og vinnu þingsins. Sigurborg er sérfræðingur í íbúalýðræði og aðkomu íbúa að vinnu og mótun sveitarfélaga. Sigurborg hefur haldið íbúaþing um land allt og er einn helsti sérfræðingur sveitarfélaga í þessum málaflokki.
Laugardagskvöldið verður síðan helgað gleði, sögum, söng og mat.
Kótilettu- og sagna kvöld verður í Samkomuhúsinu kl. 18. Sagnakvöld er upphaflega skoskur siður þar sem menn og konur stíga á stokk, undir skálaglaum gesta, og segja dauðlegar og ódauðlegar sögur.
Verð fyrir mat 2500 kr.
Kvöldinu verður síðan snúið upp í dansleik með stórhljómsveit Árna Þorgilssonar.