Raforkuöryggi og orkuframleiðsla í Vísindaporti

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Vísindaport vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður helgað málefni, sem er ofarlega á baugi í samfélagsumræðu á Vestfjörðum um þessar mundir. Elías Jónatansson, orkubússtjóri, mun flytja erindi um raforkukerfið í fjórðungnum og hvernig samspil er á milli raforkuframleiðslu, flutnings, dreifingar, varaafls og orkuöryggis.

Framleiðsla, flutningur og dreifing eru þeir þrír þættir sem þurfa að vera til staðar til að uppfylla væntingar og eftirspurn neytanda eftir raforku þegar og þar sem hennar er þörf.  Hver og einn þessara þátta getur brugðist sem kemur þá fram í straumleysi hjá notendum.  Hægt er að hanna raforkukerfið með þeim hætti að engin ein eining þess geti valdið straumleysi hjá notendum og er þá talað um að kerfið uppfylli N-1 kröfu.  Ein leið til að uppfylla slíka kröfu er svokölluð hringtenging, en hún er ekki nægjanleg ein og sér ef aflið er ekki til staðar.

Elías Jónatansson er fæddur og uppalinn í Bolungarvík.  Hann er vélaverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og er með MSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum.  Elías hefur starfað hjá framleiðslufyrirtækjum, aðallega í tengslum við sjávarútveg, en starfaði einnig sem bæjarstjóri í Bolungarvík í átta ár.  Elías gegnir nú starfi orkubússtjóra hjá Orkubúi Vestfjarða.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða. Það er öllum opið en erindi vikunnar fer fram á íslensku.

bryndis@bb.is

DEILA