Of dýrt að fá afleysingaskip

Ekki kemur til greina að fá afleysingaskip fyrir ferjuna Baldur vegna kostnaðar að sögn Gunnlaugs Grettissonar framkvæmdastjóra Sæferða. Bilun kom upp í aðavél Baldurs í síðustu viku og líklegt að viðgerð ljúki ekki fyrr en eftir áramót. Á vef RÚV er haft eftir Gunnlaugi að styrkur Vegagerðarinnar standi ekki undir kostnaði við afleysingaskip, sem hefði líkega verið 2,5 milljónir kr. á dag. Gunnlaugur bendir á að tilfelli Herjólfs séu annarsskonar þar sem Herjólfur er í eigu ríkisins. Þegar Herjólfur fer í slipp þá útvegar Vegagerðin eða ríkið varaskip. Gunnlaugur segir að samkvæmt samningi Sæferða við Vegagerðina beri ekki að taka skip á leigu sem kostar þrisvar til fjórum sinnum meira í dagsiglingu en fyrirtækið fær fyrir siglingu Baldurs.

smari@bb.is

DEILA